Elizabeth Holmes, stofnandi Theranos, var dæmd í ellefu ára fangelsi fyrir fjársvik í nóvember á síðasta ári.

Hún hefur gengið laus síðan dómurinn féll en átti að fara í fangelsi í lok apríl. Þar sem hún áfrýjaði óskaði hún eftir því að fá að ganga laus þar til áfrýjunin yrði tekin fyrir.

Dómari hafnaði þessari beiðni hennar í vikunni. Holmes ætlaði að gjörbylta blóðprufum með nýrri tækni frá fyrirtækinu Theranos.

Á tímabili var markaðsvirði Theranos metið á 9 milljarða dollara eða ríflega 1.200 milljarða króna. Síðar kom í ljós að fyrirtækið var byggt á sandi og svikum og er meðal annars fjallað um málið í heimildarmyndinni „The Inventor: Out for Blood in Silicon Valley” eftir Alex Gibney.