Bandaríska byggingarvöruverslunin Home Depot segist ekki ætla að hækka verð sín þrátt fyrir núverandi tollastríð. Á vef WSJ segir að fyrirtækið hafi unnið markvisst að því að afla sér fleiri vara frá löndum utan Kína.

Tollastríð Donalds Trumps er þegar farið að bíta á verðlag verslana en Walmart hefur meðal annars tilkynnt að verslunin muni hækka verð sín vegna tolla.

Birgjar segja að Walmart, Home Depot og fleiri verslanir hafi undanfarið þrýst á þá til gefa þeim afslætti eða að færa framleiðslu til annarra landa utan Kína.

Fjármálastjóri Home Depot segir meðal annars að fyrirtækið geri ráð fyrir að ekkert eitt land utan Bandaríkjanna muni standa fyrir meira en 10% af kaupum fyrirtækisins eftir 12 mánuði.

Walmart og Home Depot hafa haldið fjárhagsspám sínum fyrir 2025 óbreyttum en það er öfugt við mörg fyrirtæki sem hafa annaðhvort dregið úr eða frestað spám sínum vegna óvissu núverandi tolla- og efnahagsástands.