Honda og Nissan hafa tilkynnt að þau séu að hætta samrunaviðræðum sínum en bættu því þó við að þau myndu halda áfram samstarfi sínu á sviði rafbíla. Með sameiningunni hefðu Nissan og Honda orðið að risafyrirtæki innan bílaiðnaðarins á borð við Toyota og Ford.

Japönsku bílaframleiðendurnir, ásamt samstarfsfyrirtækinu Mitsubishi, ætluðu sér að sameina fyrirtækin til að geta betur keppt við erlend bílafyrirtæki, sérstaklega þau frá Kína.

Samruninn hefði einnig veitt Nissan, sem á einum tíma var annað stærsta bílafyrirtæki Japans, afgerandi létti eftir margra ára sölusamdrátt og ólgu meðal stjórnenda fyrirtækisins.

Nissan kom einnig hluthöfum á óvart í nóvember í fyrra þegar það tilkynnti að það myndi segja upp þúsundum starfsmanna til að takast á við samdrátt í sölu í Kína og í Bandaríkjunum.

Samhliða þessum fyrirhuguðu samrunaviðræðum, sem hafa verið í gangi undanfarnar vikur, birtist taívanski tæknirisinn Foxconn sem mögulegur fjárfestir í Nissan og staðfesti Young Liu, stjórnarformaður Foxconn, einnig í gær að fyrirtækið væri að íhuga kaup á hlutabréfum.