Japönsku bílaframleiðendurnir Nissan og Honda hafa undirritað viljayfirlýsingu um að hefja samrunaviðræður. Forráðamenn félaganna tilkynntu á blaðamannafundi í morgun að stefnt sé að því að ná endanlegu samkomulagi fyrir júní næstkomandi og ljúka samrunanum fyrir árið 2026.

Sameinað félag yrði þriðji stærsti bílaframleiðandi heims sé horft til seldra bíla, að því er segir í umfjöllun Financial Times.

Japanski bílaframleiðandinn Mitsubishi Motors, sem hefur átt í virku samstarfi (e. strategic alliance) við Nissan frá árinu 2016, gæti einnig orðið hluti af hinu sameinaða félagi. Mistubishi hefur undirritað aðskilda viljayfirlýsingu og hyggst taka ákvörðun í næsta mánuði hvort félagið muni taka þátt í viðræðunum.

Viðræður milli Honda, næst stærsta bílaframleiðanda Japans, og Nissan, sem er þriðji stærsti bílaframleiðandi landsins, eru skref í átt að aukinni samþjöppun í japanska bílaiðnaðinum sem margir greiningaraðilar og fjárfestar hafa talað lengi fyrir, ekki síst vegna aukinnar samkeppni frá Kína.

Forstjóri Honda, Toshihiro Mibe, sagði að markmiðið með viðræðunum væri að viðhalda alþjóðlegu samkeppnisforskoti í viðskiptaumhverfi sem hefur tekið verulegum breytingum.

Áformin fela í sér að stofnað verði sérstakt móðurfélag sem verði skráð á japanska hlutabréfamarkaðinn árið 2026. Markaðsvirði félagsins, sé miðað við núverandi markaðsvirði Nissan og Honda, yrði í kringum 54 milljarðar dala og um 58 milljarðar dala ef Mistubishi verður hluti af samrunanum.

Þrátt fyrir umfangsmikinn samruna, þá yrði sameinað félag talsvert minna en japanski keppinautur þeirra Toyota sem er í dag metinn á 287 milljarða dala.