Bandaríska veitingakeðjan Hooters of America hefur sótt um gjaldþrotavernd í Texas en keðjan áformar að selja alla sína veitingastaði til hóps fjárfesta sem tóku þátt í stofnun fyrirtækisins í von um að greiða upp skuldir sínar.

Hooters rekur 151 veitingastað og eru 154 veitingastaðir til viðbótar reknir af sérleyfishöfum. Flestir veitingastaðir keðjunnar eru staðsettir í Bandaríkjunum.

Fyrirtækið segir að það muni halda veitingastöðum þess opnum á meðan gjaldþrotaferlið standi yfir. Hooters hefur þó undanfarin misseri glímt við sömu vandamál og aðrar veitingakeðjur með hækkandi kostnað og meiri sparsemi meðal viðskiptavina.

Sal Melilli, framkvæmdastjóri Hooters of America, segir hins vegar að veitingastaðirnir séu komnir til að vera og að gjaldþrotaverndin marki mikilvægan áfanga í viðleitni félagsins til að styrkja fjárhagslegan grunn fyrirtækisins.

Veitingastaðurinn Hooters var stofnaður árið 1983 og varð frægur fyrir bæði kjúklingavængi sína sem og afgreiðslustúlkurnar sem gengu um í appelsínugulum stuttbuxum og sýnilegum bolum.

Á einu tímabili rak Hooters einnig flugfélag, sem stofnað var árið 2003 af Robert Brooks, stofnanda Hooters, þegar hann keypti leiguflugfélagið Pace Airlines í desember 2002. Hugmyndin var þá að nota flugfélagið sem óhefðbundna auglýsingu en flugfélagið sjálft hætti síðan starfsemi í apríl 2006.