Nokkrar fjölskyldur þeirra sem fórust í flugslysi Jeju Air í Suður-Kóreu í desember í fyrra hafa lagt fram hópmálssókn gegn 15 einstaklingum, þar á meðal samgönguráðherra Suður-Kóreu, fyrir vanrækslu í starfi.
Meðal þeirra 15 sem nefndir eru í kærunni eru embættismenn, starfsmenn flugfélagsins og flugvallarstarfsfólk sem bar ábyrgð á framkvæmdum, eftirliti, aðstöðustjórnun og eftirliti með fuglum.
Flugslysið, sem var það mannskæðasta í landinu, varð 179 af 181 farþega um borð að bana og krefjast nú ættingjar ítarlegrar rannsóknar á slysinu. Flugvélin var af gerðinni Boeing 737-800 og var að fljúga frá Bangkok til Muan í Suður-Kóreu.
Á vef BBC segir að ættingjarnir líti svo á að slysið hafi átt sér stað vegna vanrækslu á stjórn og að það hefði verið hægt að koma í veg fyrir það. Yfirvöld eru nú, fimm mánuðum síðar, enn að rannsaka hvað olli því að flugvélin brotlenti á Muan-flugvellinum þann örlagaríka dag.
Suðurkóreska lögreglan hefur meðal annars bannað forstjóra Jeju Air, Kim E-bae, að fara úr landi en enginn hefur hingað til verið ákærður vegna atviksins.