ByteDance, móðurfélag kínverska samfélagsmiðilsins TikTok, lagðist í umfangsmiklar hópuppsagnir í lok árs 2022. Þetta kemur fram í grein hjá Reuters.
Fyrirtækið sagði upp fleiri hundruð starfsmanna á fjölmörgum sviðum innan félagsins. Meirihluti uppsagnanna var hrint í framkvæmd hjá samfélagsmiðlinum Douyin, dótturfélagi ByteDance.
Douyin er í raun kínverska útgáfan af TikTok. Um 600 milljónir manna nota Douyin daglega, sem sett var á laggirnar fyrir rúmum sex árum síðan.
Óttast afskipti kommúnistastjórnarinnar
Bytedance hefur mikið verið í umræðunni vestanhafs að undanförnu. Stjórnvöld þar í landi óttast að kommúnistastjórnin í Kína fái aðgang að persónuupplýsingum notenda, sem félagið hefur reyndar hafnað.
Nú á dögunum samþykkti Öldungadeild Bandaríkjaþings frumvarp sem bannar alríkisstarfsmönnum að nota TikTok í opinberum tölvum. Þetta kemur fram í grein hjá Financial Times.
Þá hafa fjölmörg ríki Bandaríkjanna, eins og Maryland, Texas og Iowa, gripið til þess ráðs að meina starfsmönnum sínum að nota TikTok í opinberum raftækjum.
Mike Gallagher, þingmaður Repúblikana, vill að gengið sé enn lengra og hefur lagt til að banna alfarið notkun TikTok í Bandaríkjunum. Gallagher bætti þó við að ef bandarískt félag myndi kaupa Tiktok yrði óþarfi að leggja til bann á notkun samfélagsmiðilsins.