Hörður Guðmundsson, sem verið hefur aðaleigandi Flugfélagsins Ernis í 53 ár, segist í samtali við Viðskiptablaðið vera hættur daglegum afskiptum af rekstri þess. Hann á þó enn tæplega þriðjungshlut í félaginu ásamt eiginkonu sinni Jónu Guðmundsdóttur. Auk þessa er Ásgeir Örn Þorsteinsson að hætta sem framkvæmdastjóri Ernis.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Hörður að heimsfaraldurinn hafi verið flugfélaginu mjög erfiður.

„Hann var erfiðari fyrir okkur en sem dæmi Flugfélag Íslands, sem sameinaðist móðurfélaginu nokkrum dögum áður en lögin um hlutabótaleiðina voru samþykkt. Þar með gat Flugfélag Íslands sagt upp öllu sínu fólki og ríkið borgaði uppsagnarfrestinn ásamt öllum kostnaði. Þetta gátum við ekki gert. Ef við ætluðum að segja einhverjum upp þá urðum við að borga viðkomandi 100% laun. Þessi tími reyndist okkur mjög erfiður."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta nálgast viðtalið í heild sinni hér.