Hörður Arnars­on, for­stjóri Lands­virkjunar, fagnar því að frum­varp um Þjóðar­sjóð hafi verið lagt fram að nýju á Al­þingi og styður á­form um stofnun hans.

Þetta kemur fram í um­sögn Lands­virkjunarum frum­varp til laga um Þjóðar­sjóðs.

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dóttir, þá­verandi fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, lagði frum­varpið fram í mars en frum­varpið var fyrst lagt fram árið 2018 og endur­flutt árið 2019.

„Arð­greiðslu­geta Lands­virkjunar hefur á undan­förnum árum aukist um­tals­vert. Árið 2023 var metaf­koma þriðja árið í röð en hagnaður jókst um 19% frá fyrra me­t­ári, 2022. Fjár­hags­staða fyrir­tækisins hefur aldrei verið betri en eigin­fjár­hlut­fall er nú hærra en nokkru sinni fyrr eða 65,4% og skuld­setning komin niður í 1,4x rekstrar­hagnað fyrir af­skriftir,“ segir í um­sögn Lands­virkjunar.

Hörður bendir á að árið 2023 var besta rekstrar­ár í tæp­lega 60 ára sögu Lands­virkjunar en vegna þess á­kvað stjórn Lands­virkjunar, eftir um­leitan efna­hags- og efna­hags­ráð­herra, að hækka arð­greiðslu í 30 milljarða króna.

Saman­lagður arður vegna rekstrar­áranna 2021-2023 nemur nú rúmum 65 milljörðum króna. Arð­greiðslur frá Lands­virkjun eru greiddar til ríkisins í Banda­ríkja­dal.

„Lands­virkjun er sam­mála því að skyn­sam­legt sé að arð­greiðslu­tekjur verði ekki nýttar eins og hver annar tekju­stofn til þess að standa undir reglu­bundnum ríkis­út­gjöldum og rennir það enn styrkari stoðum undir á­form um Þjóðar­sjóð,” segir í um­sögn Lands­virkjunar.

Hörður bendir á að Ís­land sé eitt af fáum löndum í heiminum sem vinna allt sitt raf­magn úr endur­nýjan­legum orku­gjöfum og mun Þjóðar­sjóður, meðal annars með arð­greiðslum Lands­virkjunar, byggja á tekjum af endur­nýjan­legum orku­auð­lindum.

„Lands­virkjun fagnar því að í greinar­gerð með frum­varpinu sé tekið fram að græn skulda­bréf eða sjóðir sam­settir úr þeim fái til­tekið vægi í eigna­safni Þjóðar­sjóðs. Lands­virkjun vill nýta tæki­færið og hvetja til þess að á­hersla verði lögð á græna og sjálf­bærni­tengda eigna­flokka í fjár­festinga­stefnu sjóðsins.”

Hörður í­trekar að lokum stuðning Lands­virkjunar við stofnun Þjóðar­sjóðs og segir fyrir­tækið að sjálf­sögðu reiðu­búið til að veita upp­lýsingar og að­stoða stjórn­völd við frekari undir­búning málsins verði eftir því leitað.