Minni eftirspurn Kínverja eftir lúxusvörum á borð við skartgripi hefur reynst fjölmörgum fyrirtækjum þungbær og hafa þau þurft að endurskoða stöðu sína í landinu. Skartgripaframleiðandinn Bulgari horfir til að mynda til þess að stækka fótspor sitt í Indlandi.

Jean-Christophe Babin, forstjóri Bulgari, segir í samtali við Bloomberg að Indland búi við sterkan hagvöxt og hagstæða íbúasamsetningu en á komandi mánuðum og árum muni landið líklega verða einn mikilvægasti markaður fyrir skartgripasölu á heimsvísu.

Fyrirtækið hefur þó ekki sagt skilið við Kína að fullu en Bulgari stefnir á að auka viðveru í formi netverslunar á næstu tveimur árum sem muni ná til fleiri viðskiptavina í smærri borgum.