Innri vöxtur á stoðtækjum, spelkum og stuðningsvörum hjá Össuri var neikvæður um 1% á öðrum ársfjórðungi. Félagið, sem er skráð á markað í Danmörku, færði niður fjárhagsáætlun sína fyrr í vikunni og gerir nú ráð fyrir 4-6% innri vexti fyrir árið 2022 en áður hafði áætlaði félagið að vöxturinn yrði á bilinu 6-9%. Þá gerir félagið ráð fyrir að EBITDA framlegð verði á bilinu 18-20% að teknu tilliti til einskiptisliða í stað 20-21%.
„Ytri aðstæður hafa haft áhrif á sölu og verðhækkanir ásamt öðrum áskorunum í aðfangakeðjunni hafa einnig haft áhrif á reksturinn. Við sjáum hins vegar áframhaldandi söluvöxt á mörkuðum í Evrópu og Asíu, fyrir utan Kína vegna COVID-19,“ segir Sveinn Sölvason, forstjóri Össurar. „Við erum mjög ánægð með móttökurnar sem hið nýja Power Knee hefur fengið og erum bjartsýn yfir framtíðarmöguleikum þessarar tækni.“
Hagnaður Össurar á öðrum ársfjórðungi nam 14 milljónum Bandaríkjadala eða sem nemur 1,9 milljörðum íslenskra króna. Hagnaðurinn var um 8% af veltu. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 4,3 milljörðum íslenskra króna eða 18% af veltu á öðrum ársfjórðungi.
Salan nam 181 milljón dala eða um 23,6 milljörðum íslenskra króna. Söluvöxtur nam 2% í staðbundinni mynt en innri vöxtur var -1% í ársfjórðungnum. Innri vöxtur var þó jákvæður um 2% á fyrstu sex mánuðum ársins. Styrking dollarans gagnvart evru og öðrum lykilmyntum hafði neikvæð áhrif á tekjur félagsins. Handbært fé frá rekstri nam 2,2 milljörðum íslenskra króna eða 10% af veltu á öðrum ársfjórðungi.