Donald Trump, nýr forseti Bandaríkjanna, hótaði því í gærkvöldi að hann gæti mögulega lagt á allt að 25% tolla á innflutning frá nágrannalöndunum Kanada og Mexíkó frá og með 1. febrúar næstkomandi. Þetta kom fram í máli Trumps við fjölmiðlamenn á forsetaskrifstofunni eftir að hann tók formlega við forsetaembættinu í gær. Financial Times greinir frá.

Trump hótaði því einnig að leggja á tolla upp á allt að 100% á innfluttar vörur rá Kína ef kínversk stjórnvöld samþykkja ekki að selja a‏ð minnsta kosti helmingshlut í TikTok smáforritinu til bandarísks fyrirtækis.

Þá hótaði hann tollum á innfluttar vörur frá aðildarríkjum Evrópusambandsins ef Evrópulönd kaupa ekki olíu frá Bandaríkjunum í meiri mæli.

Í ræðu sinni í þing­hús­inu í gærkvöldi sagði Trump að tollar væru eitt hans helsta tól í viðræðum við viðskiptalönd og sagði þá mikilvæga til að auka tekjur bandaríska ríkisins. Hann minntist hins vegar ekki á áhrif tolla á neysluverð.

„Í stað þess að hækka skatta á borgarana okkar til að styðja önnur lönd þá munum við leggja á tolla og skattleggja erlend ríki til að auðga fólkið okkar,“ sagði Trump.

Þá sagði hann enn koma til greina að leggja á almenna tolla (e. universal tariff) á allan innflutning.