Donald Trump, sem mun taka við forsetaembættinu í Bandaríkjunum á nýju ári, hefur varað Evrópusambandið við að löndin á evrusvæðinu þurfi að laga viðskiptahallann sinn við Bandaríkin annars muni hann setja háa tolla á útflutningsvörur þeirra.
„Ég sagði við Evrópusambandið að þau verði að mæta þessum gríðarlega viðskiptahalla við Bandaríkin með því að kaupa olíu og gas í stórum stíl. Að öðrum kosti er það tollað alla leið,“ skrifaði Trump á samfélagsmiðilinn Truth Social í dag en Financial Times greinir frá.
Hótunin kemur í kjölfar þess að yfirvöld í Brussel hafa bauðst til að kaupa meira bandarískt fljótandi jarðgas (LNG), sem hefur verið líflína fyrir ESB eftir að Rússland dró úr afhendingu jarðefnaeldsneytis í kjölfar innrásar sinnar í Úkraínu.
Forseti framkvæmdastjórnar ESB, Ursula von der Leyen, sagði í nóvember að ESB myndi íhuga að kaupa meira gas frá Bandaríkjunum.
„Við fáum enn mikið af LNG frá Rússlandi og af hverju ekki að skipta því út fyrir bandarískt LNG, sem er ódýrara fyrir okkur og lækkar orkukostnað okkar,“ sagði von der Leyen.
„Þetta virðist undarleg hótun þar sem von der Leyen nefndi möguleikann á því að gera einmitt þetta,“ segir einn embættismaður ESB í samtali við FT.
Trump hefur hótað almennum 20 prósenta tolli á allar innflutningsvörur sem ekki eru frá Kína.
Í síðasta mánuði hvatti Christine Lagarde, forseti Evrópska seðlabankans, stjórnmálaleiðtoga til að vinna með Trump að tollamálum og kaupa fleiri vörur framleiddar í Bandaríkjunum.
Á fyrstu forsetatíð Trump bauð þáverandi forseti framkvæmdastjórnar ESB, Jean-Claude Juncker, til þess að kaupa meira bandarískt gas til að draga úr hótunum um viðskiptastríð.
Greinendur hjá hugveitunni Bruegel í Brussel sögðu að ESB ætti að styðja öll tilboð um að kaupa meira frá Bandaríkjunum með trúverðugri hótun um hefndaraðgerðir, sem mætti framfylgja ef Bandaríkin ákvæðu að leggja tolla á útflutning ESB.
Verð á Brent hráolíu lækkaði um 0,4 prósent í morgun og var 72,61 dalur á tunnu. Verð á West Texas Intermediate hráolíu lækkaði einnig um 0,4 prósent og fór í 69,14 dalir á tunnu.