Donald Trump, sem mun taka við for­seta­em­bættinu í Bandaríkjunum á nýju ári, hefur varað Evrópu­sam­bandið við að löndin á evru­svæðinu þurfi að laga við­skipta­hallann sinn við Bandaríkin annars muni hann setja háa tolla á út­flutnings­vörur þeirra.

„Ég sagði við Evrópu­sam­bandið að þau verði að mæta þessum gríðar­lega við­skipta­halla við Bandaríkin með því að kaupa olíu og gas í stórum stíl. Að öðrum kosti er það tollað alla leið,“ skrifaði Trump á sam­félags­miðilinn Truth Social í dag en Financial Times greinir frá.

Hótunin kemur í kjölfar þess að yfir­völd í Brussel hafa bauðst til að kaupa meira bandarískt fljótandi jarð­gas (LNG), sem hefur verið líflína fyrir ESB eftir að Rúss­land dró úr af­hendingu jarðefna­elds­neytis í kjölfar inn­rásar sinnar í Úkraínu.

For­seti fram­kvæmda­stjórnar ESB, Ur­sula von der Leyen, sagði í nóvember að ESB myndi íhuga að kaupa meira gas frá Bandaríkjunum.

„Við fáum enn mikið af LNG frá Rúss­landi og af hverju ekki að skipta því út fyrir bandarískt LNG, sem er ódýrara fyrir okkur og lækkar orku­kostnað okkar,“ sagði von der Leyen.

„Þetta virðist undar­leg hótun þar sem von der Leyen nefndi mögu­leikann á því að gera ein­mitt þetta,“ segir einn em­bættis­maður ESB í sam­tali við FT.

Trump hefur hótað al­mennum 20 pró­senta tolli á allar inn­flutnings­vörur sem ekki eru frá Kína.

Í síðasta mánuði hvatti Christine Lagar­de, for­seti Evrópska seðlabankans, stjórn­mála­leið­toga til að vinna með Trump að tollamálum og kaupa fleiri vörur fram­leiddar í Bandaríkjunum.

Á fyrstu for­setatíð Trump bauð þáverandi for­seti fram­kvæmda­stjórnar ESB, Jean-Clau­de Juncker, til þess að kaupa meira bandarískt gas til að draga úr hótunum um við­skipta­stríð.

Grein­endur hjá hug­veitunni Bru­egel í Brussel sögðu að ESB ætti að styðja öll til­boð um að kaupa meira frá Bandaríkjunum með trúverðugri hótun um hefndarað­gerðir, sem mætti fram­fylgja ef Bandaríkin ákvæðu að leggja tolla á út­flutning ESB.

Verð á Brent hráolíu lækkaði um 0,4 pró­sent í morgun og var 72,61 dalur á tunnu. Verð á West Texas Int­ermedi­ate hráolíu lækkaði einnig um 0,4 pró­sent og fór í 69,14 dalir á tunnu.