Þúsundir hótelstarfsmanna víðs vegar um Bandaríkin fóru í verkfall um helgina en fríhelgi verslunarmanna (e. Labor Day Weekend) hefur staðið yfir þar í landi undanfarna þrjá daga.
Verkfallið kemur í kjölfar margra mánaða samningaviðræðna milli starfsmanna og vinnuveitenda sem hafa ekki náð samkomulagi.
Rúmlega 10 þúsund húsverðir, afgreiðslustarfsmenn, kokkar, barþjónar og dyraverðir lögðu niður störf um allt land. Verkföll voru í gildi á hótelum á Hawaii, Seattle, San Francisco, San Diego, San Jose, Boston og mörgum öðrum stórborgum.
Verkfallið hafði aðallega áhrif á Hilton, Hyatt og Marriott-hótelin en þau hafa átt í samningaviðræðum við verkalýðsfélagið Unite Here frá því í maí.
Verkalýðsfélagið segir að starfsmenn í þjónustugeiranum hafi verið undir miklu vinnuálagi og hafi ekki fengið mannsæmandi laun síðan eftir heimsfaraldur. Talsmenn segja að þau muni ekki sætta sig við hið svokallaða nýja norm þar sem hótelin hagnist á því að draga úr tilboðum til gesta ásamt því að yfirgefa skuldbindingar sínar við starfsmenn.