Miklar hræringar hafa verið á bandaríska ríkisskuldabréfmarkaðnum að undanförnum. Krafan hefur hækkað markvert að undanförnu og gefur það vísbendingu að áhættufælni verði ráðandi á næstu árum og verðbólgan þrálát.

Breska blaðið Financial Times fjallaði um þá staðreynd í vikunni að krafan á verðtryggðum ríkisskuldabréfum í Bandaríkjunum til tíu ára (TIPS) væri kominn í núll í fyrsta sinn í í ríflega tvö ár. Krafan á þessum bréfum hefur hækkað ört að undanförnu eða um 1 prósentustig síðan í byrjun mars.

Á sama tíma hefur krafan á óverðtryggð bandarísk ríkisskuldabréf til tíu og þrjátíu ára einnig hækkað og stendur krafan á báðum flokkum í tæplega 3%. Endurspeglar þessi þróun væntingar fjárfesta um að verðbólga verði þrálát og að bandaríski seðlabankinn muni ekki slá slöku við þegar kemur að vaxtahækkunum til að stemma stigu við verðhækkanir. En þróunin kann að fela í sér önnur og eigi síðri tíðindi.

Að mati sérfræðinga Fiinancial Times markar þróunin á skuldabréfum vestanhafs ákveðin endalok þess tímabils sem hófst þegar heimsfaraldurinn skall á veturinn 2020. Aðgerðir helstu seðlabanka heims til þess að greikka fyrir aðgengi að fjármagni vegna efnahagsáhrifa faraldursins ýtti undir áhættusækni og miklar hækkanir á hlutabréfamörkuðum.

Lækkun raunvaxta gerði að verkum að fjárfestar leituðu í áhættusamari eignir í leit að ávöxtun. Á undanförnum árum hafa svokölluð vaxtafyrirtæki - tiltölulega nýstofnuð fyrirtæki sem hafa litlar sem engar tekjur en mikil tekjutækifæri til framtíðar - notið góðs af þessu ástandi og haft greiðan aðgang að fjármagni gegnum hlutabréfamarkaði. En nú er sandurinn í tannhjóli þess gangvirkis er orðinn það mikill að vélin er tekin að hökta. Financial Times vísar þannig í umfjöllun sinni til nýlegrar úttektar Goldman Sachs sem sýnir að verðmæti slíkra félaga sem eru skráð á skipulega hlutabréfamarkaði hefur lækkað um þriðjung að undanförnu. Áhrifanna hefur jafnframt gætt á öðrum og undarlegri mörkuðum. Nægir að nefna rafmyntir og NFT í því samhengi.

En barátta bandaríska seðlabankans við verðbólgu gegnum vaxtahækkanir og takmarkanir á aðgengi að lánsfé bitnar ekki eingöngu á áhættusömum eignum. Raunhagkerfið er ekki eyland í þessum efnum. Þannig hafa kjör á fyrirtækjalánum versnað til muna að undanförnu og á dögunum fóru vextir á bandarískum húsnæðislánum yfir 5% í fyrsta sinn í ríflega áratug.