Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, hefur verið formaður Viðskiptaráðs Íslands í eitt ár eftir að hafa tekið við formennsku ráðsins á Viðskiptaþingi í fyrra. Þetta ár hefur að sögn Andra verið viðburðaríkt. Gaman hafi verið að sjá hvað störf ráðsins hafi hreyft mikið við samfélagsumræðunni á tímabilinu.

„Við tókum ákvörðun um að leggja áherslu á málefnastarfið og höfum meðal annars birt úttektir á sérréttindum opinberra starfsmanna, umgjörð veðmálastarfsemi, umfangi opinbers eftirlits á Íslandi og áhrifum tolla á verðlag, ásamt árvissum útgáfum eins og úttekt á samkeppnishæfni Íslands og stuðningsstuðli atvinnulífsins.“

Menntamál hafi einnig verið ofarlega á baugi hjá Viðskiptaráði undanfarið en innlegg ráðsins í umræðuna um íslenska grunnskólakerfið hafa til að mynda vakið mikla athygli.

„Viðskiptaráð hefur verið bakhjarl menntunar frá upphafi, rekið Verzlunarskóla Íslands í rúma öld og er stofnaðili Háskólans í Reykjavík. Við tölum í dag um neyðarástand í menntamálum. Ísland er með eitt dýrasta grunnskólakerfi í heimi en um leið næstlakasta námsárangur í Evrópu. Við teljum þetta vera óviðunandi ástand og eitt stærsta hagsmunamál íslensk samfélags að ráðist verði í umbætur. Ráðið hefur meðal annars lagt áherslu að tryggja jafnræði með samræmdu námsmati, opinbera niðurstöður þess niður á skóla og auka hagkvæmni í rekstri grunnskólakerfisins, sem er með því minnsta sem þekkist innan OECD.“

Alþingiskosningarnar settu að sögn Andra einnig svip sinn á störf ráðsins. „Við héldum vel heppnaðan kosningafund með formönnum allra flokka og bjuggum til kosningapróf og kosningaáttavita svo aðrir gætu glöggvað sig á afstöðu flokkanna til 60 mála sem ráðið telur efnahagsleg framfararmál. Að loknum kosningum birtum við svo stefnumálareikni sem sýndi afstöðu mismunandi samsettra ríkisstjórnar til fyrrgreindra mála. Fleiri þúsundir nýttu sér þessi verkfæri ráðsins.“

Eins og fyrrgreind upptalning gefur til kynna var í nægu að snúast hjá Viðskiptaráði síðasta árið. Andri kveðst stoltur af störfum ráðsins frá því hann tók við formannsembættinu og hlakkar til að taka þátt í þeim áfram.

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, tók við formennskunni í Viðskiptaráði á Viðskiptaþingi í fyrra.
© HAG / AÐSEND (HAG / AÐSEND)

Forskot til framtíðar

Andri er einn af fyrirlesurum á Viðskiptaþingi í ár en fyrirlesararnir koma af sviðum fræðimennsku, opinbera geirans og einkageirans. „Við viljum beina sjónum okkar að því hvernig við getum byggt á þeim framförum sem Ísland hefur skapað sér þrátt fyrir ýmis áföll eins og heimsfaraldur, stríð í Evrópu og eldhræringar á Reykjanesi. Ég ætla að leggja áherslu á hvernig við getum horft til framtíðar með því að byggja á þeim forskotum sem við höfum, en um leið hvernig Ísland geti skapað sér ný forskot,“ segir Andri spurður um hvað fyrirlestur hans muni fjalla.

„Við eigum allt undir því að auka hér verðmætasköpun og þar með lífskjör Íslendinga. Ég ætla meðal annars að bera saman þá vegferð sem Bandaríkin annars vegar og Evrópa hins vegar hafa verið á hvað varðar hagvöxt og verðmætasköpun. Evrópa hefur setið eftir og stendur nú frammi fyrir risavöxnum áskorunum. Vonandi hefur hin margumtalaða skýrsla Draghi um samkeppnishæfni innri markaðarins vakið fólk til umhugsunar um nauðsyn þess að Evrópa skipti um kúrs og einblíni á uppbyggingu til að bæta kjör íbúa sinna,“ bætir hann við.

Yfirskrift Viðskiptaþings í þetta sinn er einmitt Forskot til framtíðar. En hvernig getur Ísland skapað sér forskot til framtíðar og þannig stuðlað að stórfelldri lífskjarasókn á komandi árum?

„Í grunninn með því að auka efnahagslegt frelsi, tryggja hagkvæmni í opinberum rekstri og að hampa einkaframtakinu, frumkvöðlum og öðrum sem skapa verðmæti í samfélaginu. Áherslan á þessi atriði er grunnurinn að því að við getum búið í samfélagi sem tryggir góð lífskjör, öfluga innviði og þétt stuðningsnet, hvort sem það eru spítalar, vegir, skólar eða annað og velferðarkerfi sem styður við þá sem eru hjálpar þurfi.“

Umhverfið hér á landi þurfi að styðja við framtakssamt fólk og ýta undir grósku í atvinnulífinu. „Ráðið fór nokkuð vel yfir þetta í hagræðingarumsögn sinni, þar sem lagðar voru til leiðir að umtalsverðri hagræðingu og bent á hvernig auka mætti skilvirkni í opinberum rekstri, ekki síst til að draga úr umfangi hins opinbera.“

Eins þurfi stjórnvöld alltaf að hafa það að leiðarljósi að lífskjör í landinu ráðist af umfangi verðmætasköpunar og þróun framleiðni í einkageiranum. Því sé mikilvægt að líta til einföldunar regluverks, skilvirkrar skattframkvæmdar og lækkunar opinberra útgjalda. „Bætt samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs skilar sér í aukinni verðmætasköpun og framleiðni.“

Nánar er fjallað um málið í sérblaði Viðskiptablaðsins um Viðskiptaþing. Áskrifendur geta nálgast viðtalið í heild hér.