Heilsuræktarstöðin Hreyfing í Glæsibæ hagnaðist um 107 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 33 milljóna hagnað árið 2022. Stjórn félagsins leggur til að ekki verði greiddur arður vegna rekstrarársins 2023, að því er kemur fram í ársreikningi félagsins.

Tekjur Hreyfingar jukust um 20% milli ára og námu 1.028 milljónum króna. EBITDA-hagnaður félagsins nam 175 milljónum samanborið við 115 milljónir árið áður.

„Árið 2023 einkenndist af framkvæmdum og endurbótum á stöðinni, þar sem skrifstofan var færð til í húsnæðinu, og nýr lyftingasalur tekin í notkun. Rekstur ársins var stöðugur og áhrif fyrri ára vegna Covid engin,“ segir í skýrslu stjórnar.

Eignir Hreyfingar voru bókfærðar á 688 milljónum króna í árslok 2023 og eigið fé var um 576 milljónir. Eiginfjárhlutfall félagsins var því um 74,4%.

Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar, á 4,6% hlut í heilsuræktarstöðinni. Stærsti hluthafi Hreyfingar með 45% hlut er Kólfur ehf., sem er að stærstum hluta í eigu Gríms Sæmundsen, forstjóra Bláa lónsins. Þá fer Bláa lónið með 22% hlut í Hreyfingu.

Meðal annarra hluthafa Hreyfingar eru Sigurður Þorsteinsson, Helgi Magnússon, Sigurður Arngrímsson og Úlfar Steindórsson.