Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri Íslands, segir í ítarlegu viðtali við Morgunblaðið í dag að ríkissáttasemjari hafi verið hringjandi í sig til að hafa áhrif á stýrivaxtahækkun í vetur á meðan kjaradeilur voru í hnút.
„Ég hélt síðastliðið haust, að verkalýðshreyfingin myndi átta sig á því að það að elta verðbólguna í launahækkunum myndi vera alveg skýrt en þannig fór það nú samt. Jafnvel sumir verkalýðsforingjar, sem voru mjög æstir yfir að geta ekki fengið meira. Nú vilja sömu foringjar halda útifundi til þess að mótmæla afleiðingum gerða sinna,“ segir Ásgeir í samtali við Morgunblaðið.
Spurður um hvort það sé ekki uppbyggileg sjálfsgagnrýni svarar Ásgeir því játandi og bætir við að auðvitað sé ekki bara við verkalýðshreyfinguna að sakast, Samtök atvinnulífsins verða líka að huga að þessu. „það hefnir sín fyrir þeim líka að gera samninga umfram það sem innistæða er fyrir.“
Hann segir síðan ákveðin meðvirkni í gangi þar sem þeir sem sömdu kvörtuðu yfir hækkuninni.
„Ríkissáttasemjari var hringjandi hingað til þess að hafa áhrif á Seðlabankann. Við ættum ekki að hækka vexti og helst ekki tjá okkur af því að formaður VR væri ekki stöðugur í skapi og hlypi út af fundum ef hann sæi eitthvað úr Seðlabankanum. Reyndu síðan að fresta vaxtaákvörðunarfundi og svo framvegis. Það er ekkert annað en meðvirkni,” segir Ásgeir.
Hægt er að lesa viðtalið í heild í Morgunblaðinu hér.