HS Orka hefur lokið við að endur­fjár­magna skuldir fé­lagsins og tryggja lána­línur fyrir á­fram­haldandi upp­byggingu hér á landi. Þetta kemur fram í til­kynningu frá fé­laginu.

„Fjár­mögnunin nær til yfir­standandi stækkunar og endur­bóta orku­versins í Svarts­engi og er mikil­vægt skref í átt að metnaðar­fullum á­formum um frekari vöxt fé­lagsins í jarð­varma og vatns­afli, sem byggja á orku­kostum í nýtingar­flokki ramma­á­ætlunar,“ segir í til­kynningu frá HS Orku.

Láns­fjár­hæðin nemur að jafn­virði um 290 milljónum dollara eða um fjöru­tíu milljörðum ís­lenskra króna og er veitt af ís­lenskum og al­þjóð­legum bönkum og sjóðum.

„Við erum afar sátt við það að hafa lokið svo um­fangs­mikilli endur­fjár­mögnun á sama tíma og við höfum þurft að mæta fjöl­breyttum á­skorunum í rekstri vegna jarð­hræringa og elds­um­brota á Reykja­nes­skaganum síðustu misseri. Þetta undir­strikar styrk fé­lagsins og trú jafnt inn­lendra sem er­lendra lán­veit­enda á vaxtar­á­form okkar til fram­tíðar,“ segir Tómas Már Sigurðs­son, for­stjóri HS Orku.

Tómas segir jafn­framt að það sé á­nægju­legt að í hópi lán­veit­enda séu nýir aðilar en fé­lagið gaf út skulda­bréf á USPP (US Private Placement) markaðnum.

„Við erum eitt fyrsta einka­rekna fé­lagið hér á landi til að gefa út á þeim markaði og erum við stolt af því. Endur­fjár­mögnunin fellur undir grænan fjár­mögnunarra­mma fé­lagsins og styður þannig við lang­tíma­mark­mið okkar í rekstri. Við höldum á­fram stækkun og endur­bótum orku­versins í Svarts­engi og stefnum að því að ljúka fram­kvæmdinni í árs­lok 2025 en hún mun, á­samt öðrum verk­efnum sem eru fram undan hjá okkur, leggja lóð á vogar­skálar orku­skipta á Ís­landi og mæta vaxandi eftir­spurn eftir raf­orku hér á landi,“ segir Tómas.