HS Veitur högnuðust um tæplega 1,3 milljarða króna árið 2024, sem samsvarar 26,9% aukningu frá fyrra ári þegar félagið hagnaðist um einn milljarð. Félagið birti ársuppgjör í dag.

Stjórn HS Veitna leggur ekki til greiðslu arðs eða kaup á eigin bréfum að svo stöddu. Stjórnin leggur til hins vegar til að heimild sé veitt fyrir kaupum á eigin bréfum fyrir allt að 10% af eigin fé í samræmi við heimildir í hlutafélagalögum.

„Sökum náttúruhamfara og óvissu þeim tengdum ákvað stjórn að greiða ekki út arð árið 2024. Rekstur ársins markaðist af náttúruhamförunum og áætlanir í rekstri náðust ekki að fullu,“ segir í skýrslu stjórnar.

Tekjur HS Veitna námu 10,5 milljörðum króna og jukust um 6,7% milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) dróst saman um 2,5% milli ára og nam 3,8 milljörðum króna.

Auka fjárfestingar um meira en helming

Fjárfestingar HS Veitna námu rúmlega 1,9 milljörðum króna í fyrra, samanborið við 2,1 milljarð árið 2023. Í áætlunum fyrir árið 2025 er gert ráð fyrir að fjárfestingar HS Veitna verði um rúmlega 3,5 milljarðar, þar af 2,5 milljarðar í raforkukerfum.

Eignir félagsins í árslok 2024 námu 36 milljörðum króna og eigið fé var um 17 milljarðar. HS Veitur eru í 50,1% eigu Reykjanesbæjar, 49,8% eigu HSV Eignarhaldsfélags slhf., sem er að mestu leyti í eigu lífeyrissjóða, og 0,1% eigu Suðurnesjabæjar.

Nátturuhamfarir valdið skemmdum á dreifikerfum

Í skýrslu stjórnar er vikið að jarðskjálftavirkni og eldgosum sem hafa verið áberandi á Reykjanesi undanfarin ár.

Náttúuhamfarir á Reykjanesi hafi valdið skemmdum á dreifikerfum HS Veitna í Grindavík og eru þau að hluta til löskuð í bænum eftir jarðsig, jarðgliðnun og hraunflæði með tilheyrandi kostnaði, tekjutapi og tjóni á eignum fyrirtækisins.

„Félagið hefur þurft að ráðast í fjölmargar viðgerðir og framkvæmdir á veitukerfum í og við Grindavík til þess að halda uppi þjónustuvið viðskiptavini. Áhrifin af jarðhræringunum gætu síðar komið fram í auknum viðhaldskostnaði og nýframkvæmdum en vegna aðstæðna í bænum hefur ekki verið unnt að meta umfang skemmda í dreifikerfunum.“

Orkuver HS Orku í Svartsengi sem sér HS Veitum fyrir heitu og köldu vatni á Suðurnesjum og rafmagni að hluta er staðsett í grennd við þau svæði þar sem gosið hefur undanfarin ár.

„Vegna þessa er sá möguleiki fyrir hendi að orku- og neysluvatnsafhending stöðvist til skemmri eða lengri tíma. HS Veitur hafa í samstarfi við stjórnvöld, sveitarfélögin á Suðurnesjum og aðra hagaðila gripið til ýmissa aðgerða til að verja eignir og minnka líkur áþjónusturofi, meðal annars með styrkingu rafdreifikerfisins og uppsetningu varavatnsbóls og neyðarkyndistöðva.“

Áfram áhætta þar til Suðurnesjalína 2 er komin í gagnið

Stjórnin segir að þrátt fyrir að ekki séu taldar líkur á langvarandi rafmagnsleysi vegna mögulegra náttúruhamfara á Reykjanesi þá sé enn áhætta í rekstri HS Veitna hvað varðar raforkuöryggi á Suðurnesjum á meðan Suðurnesjalína 2 er ekki komin í gagnið.

Það horfir þó til bjartari tíma þar sem á árinu 2024 fékk Landsnet framkvæmdaleyfi eftir margra ára leyfisferli og er undirbúningur framkvæmda hafinn.

„Enn liggur þó ekkert fyrir um hvenær framkvæmdum við Suðurnesjalínu 2 lýkur þar sem verkefnið er enn að tefjast vegna vinnu við eignarnám og dómsmál.“

Sömdu við Vestmannaeyjabæ í byrjun árs

Í byrjun árs 2025 var skrifað undir samkomulag við Vestmannaeyjabæ sem tryggir stöðu félagsins gagnvart skemmdum á neðarsjávarlögn sem er í eigu Vestmannaeyjabæjar en rekin af HS Veitum.

Lögnin er forsenda fyrir því að mögulegt sé að fá vatn til dreifingar fyrir vatnsveituna í Vestmannaeyjum. Tekjur af vatnsveitunni í Vestmannaeyjum nema 2,75% af heildartekjum HSVeitna.

„Áfram er áhætta fólgin í því að skemmdir eru á lögninni og óljóst hversu lengi hún muni halda. Til að bregðast við því er Vestmannaeyjabær að vinna að innkaupum á nýrri lögn sem gert er ráð fyrir að verði lögð árið 2026.“