HS Veitur, sem annast dreifingu á rafmagni, heitu vatni og köldu vatni, hagnaðist um 806 milljónir króna árið 2022, samanborið við 949 milljónir árið áður. Heildarhagnaður félagsins nam þó 2,1 milljarði króna vegna endurmats rekstrarfjármuna sem nemur 1,6 milljörðum. Félagið birti ársreikning í dag.

Stjórn HS Veitna leggur til að ekki verði greiddur arður í ár en að keypt verði eigin bréf fyrir 500 milljónir króna. Til samanburðar keypti félagið eigin bréf fyrir 1,8 milljarða króna í fyrra.

Rekstrartekjur félagsins jukust um 7,4% á milli ára og námu 8,7 milljörðum. Tekjur af raforkudreifingu og flutnings jukust um 8,5% og námu tæplega 5 milljörðum. Tekjur af sölu og dreifingu á heitu vatni jukust um 8,8% og námu 2,7 milljörðum og tekjur af sölu og dreifingu á fersku vatni skilaði 782 milljónum.

Stöðugildi námu að meðaltali 97 á árinu 2022 sem er sami fjöldi og árið 2021. Laun og launatengd gjöld námu 1,5 milljörðum króna og jukust um 9,2% frá fyrra ári.

Eignir HS Veitna voru bókfærðar á 34,1 milljarð króna í árslok 2022 og eigið fé var um 15,2 milljarðar.

HS Veitur eru í 50,1% eigu Reykjanesbæjar, 49,8% eigur HSV Eignarhaldsfélags og Suðurnesjabær fer með 0,1% hlut. HSV keypti 15% hlut Hafnarfjarðarbæjar árið 2020 fyrir um 3,5 milljarða króna.

HSV Eignarhaldsfélag er að mestu leyti í eigu lífeyrissjóða en auk þess er Ursus, fjárfestingafélag Heiðars Guðjónssonar, með tæplega 5% hlut og Miranda, í eigu Berglindar Bjarkar Jónsdóttur, fer með 2% hlut samkvæmt ársreikningi HSV fyrir árið 2021.