HSBC, stærsti banki Evrópu, hefur náð samkomulagi um kaup á breska armi hins fallna banka Silicon Valley Bank (SVB) fyrir eitt pund, eða um 170 krónur, í kjölfar krísufundar með Englandsbanka og ráðherrum um helgina.
Noel Quinn, forstjóri HSBC, sagði að breskir viðskiptavinir HSBC muni geta notað þjónustu bankans án vandræða. Hann sagði yfirtökuna falla vel að starfsemi HSBC í Bretlandi, einkum viðskiptabankahlið hennar sem og þjónustu við vaxtarfyrirtæki.
Fleiri en 3.000 bresk tæknifyrirtæki eru með innistæður hjá Silicon Valley Bank UK. Áhyggjur voru uppi um að fyrirtækin gætu ekki greitt starfsfólki sínu laun eða staðið í skilum við lán ef starfsemi breska armsins myndi stöðvast, að því er segir í frétt The Times.
Í tilkynningu til Kauphallarinnar sagði HSBC að skuldir SVB UK nema um 5,5 milljörðum punda og innstæður hans væru um 6,7 milljarðar punda. SVB UK hefði skilaði 88 milljóna punda hagnaði fyrir skatta í fyrra, eða sem nemur 15 milljörðum króna. HSBC sagði að von væri á frekari fjárhagslegum upplýsingum samhliða uppgjöri fyrsta ársfjórðungs sem birt verður í maí.
Hlutabréfaverð HSBC hefur fallið um tæplega 4% í fyrstu viðskiptum í morgun.