Höggið sem hlutabréfamarkaðir hafa orðið fyrir núna er það þriðja á tiltölulega skömmum tíma. Fyrst var það heimsfaraldurinn, svo innrás Rússa í Úkraínu og nú tollastríð Bandaríkjanna.
Hafsteinn Hauksson, aðalhagfræðingur Kviku banka, segir að öfugt við Covid og innrásina í Úkraínu séu þessar lækkanir núna ekki að verða vegna neins áþreifanlegs tjóns; öll fyrirtækin, framleiðslutækin, aðföngin, störfin og viðskiptasamböndin sem standi undir verðmætasköpun í veröldinni séu enn á sínum stað.
„Tollastríðið eru hrein hagstjórnarmistök, sem eru hugarfóstur tiltölulega fámenns hóps ráðamanna í einu ríki," segir Hafsteinn. „Það er auðvitað grátlegra fyrir vikið, en það þýðir líka að það er hægt að vinda ofan af mistökunum tiltölulega hratt – öfugt við Covid og innrásina.“
Spurður hvort hann hafi átt von á því að þessi ákvörðun Trump myndi hafa jafnmikil áhrif á heimshagkerfið og raun ber vitni svarar Hafsteinn: „Ég hef haft svolitlar áhyggjur af því hvaða áhrif stefnubreytingar í Bandaríkjunum í upphafi árs gætu haft á markaði, sérstaklega vestanhafs, en ég hafði satt best að segja ekki hugarflug til að láta mér detta í hug að þessar tollabreytingar yrðu jafn illa ígrundaðar og framkvæmdar af jafnmiklu skeytingarleysi fyrir bandarísku atvinnulífi og raun ber vitni.”
Tollar gera heiminn fátækari
Að sögn Hafsteins er ekkert óeðlilegt að þessar aðgerðir hafi haft neikvæð áhrif á eignaverð.
„Hagfræðingar hafa ritað um slæm áhrif tolla síðan á tímum upplýsingarinnar. Þeir raska alþjóðlegum birgðakeðjum og draga úr hagkvæmni í framleiðslu með þeim afleiðingum að framleiðslugeta og lífskjör skerðast á heimsvísu – tollar gera heiminn bókstaflega fátækari. Viðbrögð á mörkuðum bera þessi viðteknu sannindi skýrt með sér, en þau benda einnig til að umfang tollana hafi verið meira en markaðsaðilar gerðu ráð fyrir."
„En tollarnir eru líka til marks um djúpstæðari breytingar," segir Hafsteinn. „Við hugsum kannski ekki mikið út í það dags daglega, en flest fyrirtæki eiga mjög mikið undir þessari heimsskipan, sem hefur byggst upp eftir seinni heimsstyrjöldina undir forystu Bandaríkjanna og Evrópu, ekki bara hvað varðar frjálsræði í viðskiptum á milli landa heldur einnig traust á stofnunum, virðingu fyrir alþjóðlegum skuldbindingum, fyrirsjáanleika við stefnumótun og þar fram eftir götunum.
Aðgerðir bandarískra stjórnvalda á fyrstu mánuðum ársins hafa grafið undan þessari heimsskipan og mér finnst alls ekki óeðlilegt að það leiði af sér einhverja endurverðlagningu á áhættu á alþjóðlegum mörkuðum, sérstaklega í Bandaríkjunum þar sem áhætta var orðin óeðlilega ódýr í upphafi árs og verðkennitölur á hlutabréfamarkaði mjög háar.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.