Þórarinn Ævarsson athafnamaður segir lögleiðingu geðheilbrigðismeðferðar með hugbreytandi efnum á borð við Psilocybin – virka efnið í ofskynjunarsveppum svokölluðum – þjóðþrifamál sem sparað geti íslensku þjóðfélagi gífurlegan kostnað auk þess að stórbæta líf margra. Rætt er við Þórarin í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið.
Áhugi á meðferð við geðrænum vandamálum með hjálp hugbreytandi efna almennt og Psilocybins sérstaklega hefur farið vaxandi síðustu ár. Þau hafa gefið góða raun í fjölmörgum rannsóknum erlendis og sumsstaðar er notkun þeirra þegar heimil.
Hér á landi verður ráðstefnan Psychedelics as Medicine – sem eins og nafnið gefur til kynna fjallar um notkun hugbreytandi efna í læknisfræðilegu samhengi – haldin í Hörpu dagana 12. og 13. janúar eftir rétt rúma viku.
Íslensk stjórnvöld eru samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins jákvæð gagnvart hugmyndinni, og komi yfirstandandi tilraunir vel út er sagt raunhæft að lyfið gæti verið heimilað innan fáeinna ára. Blaðið hefur ennfremur heimildir fyrir því að þegar hafi verið mótuð áform um rekstur slíkrar þjónustu þegar lög leyfi.
Kostaði hann fyrirtækið
„Ég missti fyrirtækið mitt útaf veikindum, þó ég hafi ekki áttað mig strax á því sjálfur,“ segir Þórarinn um pítsustað sinn, Spaðan, sem lokaði endanlega síðasta sumar eftir rúm tvö ár í rekstri.
„Ég var að reka tugmilljarða fyrirtæki áður en ég fór í þetta og gat gert það með bundið fyrir augun. En þegar þú ert ekki þú sjálfur þá bara gerist ekki neitt,“ segir hann og fullyrðir að sín saga sé síður en svo einsdæmi.
Nánar er rætt við Þórarin og fjallað um málið í næsta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kemur út á morgun.