Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, gerir nýlega umræðuskýrslu Seðlabankans um lífeyrissjóði að umfjöllunarefni í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Hann fer yfir nokkrar ábendingar í skýrslunni sem séu sumar góðar en aðrar síðri.
Sú hugmynd Seðlabankans sem fær hörðustu gagnrýnina frá Gunnari er að veita bankanum heimild til að leggja á stjórnvaldssektir á lífeyrissjóði. Í skýrslunni nefnir bankinn almenn og sérstök varnaðaráhrif sekta.
„Hugmyndin er afleit og sektargreiðslur munu alltaf lenda á almennum sjóðfélögum,“ segir Gunnar.
„Í landinu eru í gildi lög og reglur sem fólki ber að fara eftir. Þeir sem virða ekki reglur missa oftast atvinnu sína. Ef aðilar fara vísvitandi á svig við lög eru í gildi almenn hegningarlög. Stjórnvöld eiga ekki að víkja frá þessari meginreglu og veita opinberum stofnunum of mikið vald, í þessu tilviki til að refsa með sektum.“
Segir orðspor Seðlabankans nokkuð laskað
Í inngangi greinarinnar segir Gunnar að orðspor Seðlabankans gagnvart lífeyrissjóðum sé nokkuð laskað eftir að bankinn lagðist gegn vel undirbúnum mótvægisaðgerðum sjóða, sem vega meira en helming af lífeyriskerfinu, við innleiðingu á nýjum líftöflum árið 2022.
„Við mótun þeirra var sérstaklega hugað að sanngirni og meðalhófi og hefur Hæstiréttur staðfest lögmæti þeirra. Útgáfa sérritsins er e.t.v. hugsuð að einhverju leyti til að útskýra sjónarmið bankans frá þeim tíma,“ segir Gunnar.
Fjármálaráðuneytið tilkynnti í desember 2021 að lífeyrissjóðir skuli nota nýjar líftöflur við mat á skuldbindingum sínum. Með þeim er reiknað með hækkandi lífaldri komandi kynslóða og að sjóðfélagar almennt lifi að meðaltali rúmum fjórum árum lengur en áður var reiknað með. Þessar breyttu forsendur um lífaldur auka skuldbindingar lífeyrissjóðanna eðli málsins samkvæmt.
Nokkrir lífeyrissjóðir, þar á meðal Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE), Gildi og Almenni, samþykktu í kjölfarið mótvægisaðgerðir vegna þessarar breytingar.
Megininntak þeirra er að greiða lífeyri í lengri tíma en áður var reiknað með eða að dreifa úttekt eigna yfir lengra tímabil. Þar sem reiknað er með að væntum árum á lífeyri fjölgi felur aðgerðin í sér lækkun mánaðarlegra lífeyrisgreiðslna, misjafnt eftir fæðingarári þar sem reiknað er með að árgangar lifi mislengi og að yngri aldurshópar lifi lengur en eldri.
Fjármála- og efnahagsráðherra staðfesti umræddar samþykktarbreytingar í lok árs 2022. Þess má geta að ákveðnir lífeyrissjóðir þurftu að fresta gildistöku samþykktarbreytinganna um nokkra mánuði þar sem málið var lengur til skoðunar hjá ráðuneytinu en gert var ráð fyrir.
Bjarni Guðmundsson, sem hefur starfað sem tryggingastærðfræðingur í meira en 30 ár, gagnrýndi mótvægisaðgerðir lífeyrissjóðanna nokkuð harðlega og skoraði á fjármála- og efnahagsráðuneytið að synja lífeyrissjóðum staðfestingu á umreikningi lífeyrisréttinda, líkt og Innherji greindi frá á sínum tíma.
Heimildir Viðskiptablaðsins herma að fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) hafi í umsögn til fjármálaráðuneytisins lagst eindregið gegn mótvægisaðgerðum lífeyrissjóðanna og lagt til að ráðuneytið myndi hafna samþykktarbreytingunum. Að lokum fór fjármálaráðuneytið gegn ráðum FME og veitti samþykki fyrir breytingunum.
Viðskiptablaðið hefur heyrt að mörgum lífeyrissjóðamönnum hafi fundist að Seðlabankinn hafi sýnt mikla óbilgirni í þessu máli og tekið afstöðu sem var þvert á lögfræðilega ráðgjöf sem sjóðirnir höfðu fengið úr mörgum mismunandi áttum.
Í lok síðasta mánaðar staðfesti Hæstiréttur lögmæti breytinga á mánaðarlegum greiðslum eftir aldri, í máli sjóðfélaga í sameignardeild LIVE gegn lífeyrissjóðnum.
Seðlabankinn vill taka við staðfestingu samþykkta frá ráðuneytinu
Í ofangreindri umræðuskýrslu Seðlabankans kemur fram að bankinn telji „nauðsynlegan þátt“ í samræmingu löggjafar um lífeyrissjóði við aðra löggjöf um eftirlitsskylda starfsemi að færa verkefni tengd veitingu starfsleyfis, staðfestingu samþykkta og samninga og skipun umsjónaraðila frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu til FME.
„Með slíku fyrirkomulagi yrði nýtt sú þekking sem til staðar er hjá fjármálaeftirliti Seðlabankans og varðar könnun á hlítni eftirlitsskyldra aðila við gildandi lög og reglur,“ segir í skýrslunni.
Gunnar leggst gegn tillögu Seðlabankans í grein sinni og segir það ekki vera góða stjórnsýslu að framkvæmdavald og eftirlit sé á sömu hendi.
„Á liðnum árum hafa komið upp nokkur tilvik þar sem það hefur reynst vel að fá úrlausn mála frá öðrum aðila en þeim sem fer með eftirlitshlutverkið. Mál fá vandaðri stjórnsýslumeðferð með núverandi fyrirkomulagi,“ segir Gunnar.
Áskrifendur geta lesið grein Gunnars í heild sinni hér.