Útflutningstekjur iðnaðar námu 698 milljörðum króna í fyrra sem er 38% af heildarútflutningstekjum þjóðarbúsins. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins (SI) þar sem bent er á að iðnaður sé stærsta útflutningsgrein hagkerfisins og því skipti þjóðarbúið miklu með hvaða hætti greinin þróast.

Tvær af fjórum meginstoðum útflutnings Íslands eru innan iðnaðar, þ.e. orkusækinn iðnaður og hugverkaiðnaður. Í greiningu SI segir að útflutningstekjur hugverkaiðnaður hafi verið 263 milljarðar á síðasta ári sem sé ríflega 14% af heildarútflutningstekjum hagkerfisins á því ári. Útflutningstekjur greinarinnar hafi verið í miklum og stöðugum vexti síðustu ár, en til marks um það námu þær 91 milljarði árið 2013. Vöxturinn hafi haldið áfram í ár en á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs námu útflutningstekjur hugverkaiðnaðar 86 milljörðum, sem er 7% aukning frá sama tíma í fyrra. Samtökin áætla að tekjurnar verði yfir 300 ma.kr. á þessu ári.

„Hugverkaiðnaður er grein byggð á hugviti og fjárfestingu í nýsköpun. Fyrirtæki í hugverkaiðnaði byggja oft á umfangsmikilli rannsókna- og þróunarstarfsemi. Um er að ræða fyrirtæki í upplýsingatækni- og fjarskiptaiðnaði, þ.m.t. tölvuleikjagerð, lyfjaframleiðslu, líf- og heilbrigðistækni og fjölbreyttum hátækniiðnaði. Með vexti hugverkaiðnaðar hefur fjölbreytni útflutningstekna þjóðarbúsins aukist. Vöxtur greinarinnar hefur þannig rennt stoðum undir aukinn stöðugleika í hagkerfinu. Mikill fengur er af greininni því framleiðni í greininni er há og hún skapar verðmæt og eftirsóknarverð störf,“ segir í greiningu SI.

Innan hugverkaiðnaðar sé upplýsingatækni- og fjarskiptaiðnaður. Mjög snarpur vöxtur hafi verið í þeirri starfsemi á undanförnum árum. Það sjáist vel hvort sem litið sé til útflutningstekna, veltu fyrirtækja í greininni eða fjölda starfandi. Innan upplýsingatækni sé einnig tölvuleikja- og gagnaversiðnaður. Hátækniþjónustuiðnaður af ýmsum toga sé einnig hluti af þessari fjölbreytilegu flóru upplýsingatæknifyrirtækja og sá hluti greinarinnar hafi verið gróskumikil hér á landi á síðustu árum. Um sé að ræða greinar á borð við kvikmyndaiðnað ásamt þjónustu arkitekta og verkfræðinga auk vísinda- og tækniþjónustu ýmiskonar. Lyfjaframleiðsla, líf- og heilbrigðistækniiðnaður séu einnig innan hugverkaiðnaðar. Mörg öflug fyrirtæki hafi haslað sér völl hér á landi á því sviði, verið í örum vexti síðustu ár og stór áform séu um frekari uppbyggingu hér á landi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.