Humble Software ehf, fyrirtæki sem sérhæfir sig í lausnum sem sporna við matarsóun fyrirtækja, tryggði sér á dögunum 40 milljón króna fjármögnun sem styðja á við frekari framþróun og vöxt fyrirtækisins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu, en fjármögnunin var leidd af Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og Founders Ventures ehf.

Humble, sem var stofnað árið 2020, hefur einbeitt sér að því að bjóða upp á lausnir sem leggja áherslu á að minnka matarsóun fyrirtækja. Fyrirtækið rekur m.a. markaðstorg undir merkjunum Humble sem er fáanlegt bæði á App Store og í Google Play Store.

Stofnendurnir, Andri Geir, Steinn Arnar og Hlynur Rafn, eru æskuvinir af Seltjarnarnesi. Í tilkynningu frá félaginu segir að vegferð félagsins hafi fyrst farið af stað samhliða háskólanámi en alvara hafi farið í verkefnið fyrir rúmu ári þegar markaðstorg félagsins var gefið út sumarið 2023.

„Það er náttúrulega bara alveg frábært að fá tækifæri til þess að byggja upp fyrirtæki með sínum bestu vinum og láta gott af sér leiða á sama tíma.” er haft eftir teyminu.

Andri Geir einn stofnenda og framkvæmdastjóri segir fjármögnunina mikla viðurkennningu fyrir fyrirtækið.

„Markaðstorgið hefur farið mjög vel af stað hjá okkur, almennt hafa notendur tekið mjög vel í lausnina og sjáum við að fólk kemur aftur og aftur. Sem er gott merki um að við séum að gera eitthvað rétt. Þessi fjármögnun er fyrst og fremst gríðarleg viðurkenning fyrir okkur sem lítið fyrirtæki, það eru greinilega fleiri en við í Humble sem sjá tækifærin sem liggja í því að leysa þetta vandamál sem matarsóun er.

Það er enginn sem leikur sér að því að henda mat, en það vantar einfaldlega lausnir fyrir fyrirtæki til að koma þessum viðkvæmu verðmætum fljótt og örugglega í verð. Við byrjuðum á því að þróa markaðstorgið fyrir veitingastaði og minni matsölustaði, við áttuðum okkur svo á því að það finnast engar lausnir fyrir heildsölur og framleiðendur ofar í virðiskeðjunni. Við erum því hægt og rólega að aðlaga markaðstorgið að þessum aðilum.”

Í tilkynningunni segir að fjárfesting NSA og Founders Ventures sé staðfesting á þeirri vinnu sem hafi farið í uppbyggingu lausnarinnar. Hún verði nýtt í að efla lausnina, stórbæta markaðsinnviði félagsins og þannig aðstoða við að greiða leið lausna Humble inn á alla staði í virðiskeðju matvæla á Íslandi.

„Við erum mjög ánægð með þátttöku sjóðsins í þróun Humble. Fjárfestingin er í samræmi við stefnu Nýsköpunarsjóðs um að styðja sprotafyrirtæki snemma, tengja þau við einkafjárfesta og stuðla að frekari vexti þeirra. Það er sérstaklega ánægjulegt að styðja verkefni sem minnka matarsóun, auka nýtingu matvæla og styðja umhverfismarkmið. Verkefnið er leitt af öflugum teymi sem býr yfir verðmætri sérfræðiþekkingu. Við erum viss um að smáforritið muni hjálpa fyrirtækjum að minnka matarsóun og hlökkum til samstarfsins með öflugu teymi Humble,“ er haft eftir Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins.

Bala Kamallakharan hjá Founders Venture segir lausn Humble geta dregið úr matarsóun og matvælaverðbólgu.

„Humble is building a unique marketplace where food waste and food inflation can be reduced. We live in a world where we produce an abundance of food but we waste most of it due to market and logistical inefficiencies. The founders of Humble are mission driven and are working on a hard problem that can actually solve many food related challenges. We are excited to partner with Andri, Steinn and Hlynur to increase market participation and reduce food waste.”