Gjaldþrotaskiptum ferðaþjónustufyrirtækisins Reykjavík Duck Tours er lokið en ekkert fékkst upp í 114 milljón króna kröfur sem lýst var í búið. Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði félagið gjaldþrota í mars á þessu ári.
Félagið hóf starfsemi hérlendis í september 2018 en um var að ræða nýjung þar sem faratæki fyrirtækisins, sem bjóða upp á ferðir um sjó og land, voru þau fyrstu sinnar tegundar hérlendis.
Af ársreikningum að dæma hefur ekki verið mikil starfsemi hjá félaginu síðastliðin ár en félagið skilaði síðast inn ársreikningi 2021 en á því ári voru engar tekjur eða gjöld skráð. Félagið tapaði 31 milljón árið 2019.
Tilgangur félagsins var að bjóða upp á skoðunarferðir um götur borgarinnar og innri höfnina í Reykjavík um borð í sérsmíðuðu farartæki sem er bæði hópferðabíll og skip í einu tæki, svokallað láðs- og lagarfarartæki (e. amphibious vehicle).
Viðskiptablaðið tók viðtal við stofnendur félagsins árið 2018 sem má lesa hér að neðan.