Fiskeldisfélagið Matorka var rekið með 7,7 milljóna evra tapi í fyrra, sem nemur um 1,2 milljörðum króna. Rekstrartekjur námu 10,8 milljónum evra og jukust um 10%.
Í ársreikningi félagsins – sem átt hefur í fjárhagsvanda vegna áhrifa Reykjaneselda á reksturinn og fór í greiðslustöðvun í september sl. – kemur fram að samkomulag hafi náðst við lykilkröfuhafa í nóvember sl. um nauðungasamning sem hafi verið samþykktur af meira en 94% kröfuhafa.
Eitt af skilyrðum samningsins hafi verið að nýtt hlutafé að lágmarki 1,3 milljónir evra yrði aflað innan 10 daga frá samþykki dómstóla á kröfuhafafundi. Þetta skilyrði hafi verið uppfyllt 31. janúar með útgáfu nýs hlutafjárs og með því að breyta breytanlegum skuldabréfum sem upphaflega voru gefin út 31. október 2024 í hlutafé að fjárhæð 1,4 milljónir evra.
Þá afskrifuðu óveðtryggðir kröfuhafar á milli 33,3% og 40% af kröfum sínum ásamt því að stærsti veðtryggði kröfuhafinn breytti 2,6 milljónum evra af skuld sinni í óveðtryggt lán.
Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.