Íslensk hlutabréf lækkuðu verulega annan daginn í röð eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti ákvað að setja innflutningstolla á öll ríki heimsins.

Úrvalsvísitalan OMXI15 lækkaði um 4,3% í viðskiptum dagsins en vísitalan hefur nú lækkað um rúm 8% síðastliðna tvo viðskiptadaga.

Vaxtarfélögin, málmleitarfélagið Amaroq Minerals og augnlyfjafélagið Oculis, leiddu lækkanir í dag en gengi beggja félaga fór niður um meira en 10%.

Hlutabréfaverð Oculis lækkaði um 11,4% en félagið er tvískráð bæði hérlendis og í Bandaríkjunum. Dagslokagengi félagsins var 2.020 krónur eftir 973 milljón króna viðskipti.

Gengi Amaroq lækkaði um 10,5% í 742 milljón króna viðskiptum og lokaði í 124 krónum.

Sé tekið mið af fjölda hluta og dagslokagengi hefur markaðsvirði Oculis lækkað um 20,5 milljarða á síðustu tveimur dögum á meðan markaðsvirði Amaroq hefur lækkað um 9,35 milljarða.

JBT Marel lækkaði um tæp 8% í viðskiptum dagsins og hefur gengi félagsins lækkað núna um 15% frá því að Trump greindi frá tollunum sínum á miðvikudaginn. Dagslokagengi JBT Marel var 14.100 krónur á hlut.

Sé tekið mið af daglokagengi miðvikudagsins hefur markaðsvirði JBT Marel lækkað núna um 128 milljarða á tveimur viðskiptadögum.

Markaðsvirði þeirra þriggja félaga sem lækkuðu mest í viðskiptum dagsins hefur þannig lækkað um samanlagt 158 milljarða á tveimur dögum.

Öll skráð félög lækkuðu í viðskiptum dagsins en gengi Alvotech fór niður um 6% í 507 milljón króna viðskiptum og lokaði í 1.140 krónum. Gengi Sýnar lækkaði um rúm 5% og lokaði í 28,2 krónum. Heildarvelta á markaði nam 6,9 milljörðum króna.

Davíð Björnsson, greiningaraðili í verðbréfamiðlun Íslandsbanka, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í dag að viðbrögð íslenskra fjárfesta við tollum Trump væru fremur ýkt en keðjuverkun væri að eiga sér stað.

„En það er ekkert rökrétt í þessu. Markaðurinn (OMXI15 vísitalan) er búinn að lækka meira hér en í Bandaríkjunum eftir að tollarnir komu á,“ sagði Davíð.