Húsasmiðjan hefur sett í loftið nýtt sjálfsafgreiðslu- og þjónustuapp. Með smáforritinu geta viðskiptavinir Húsasmiðjunnar og Blómavals afgreitt sig sjálfir með lausn sem kallast „Skanna, borga út“ og komist þannig hjá afgreiðslukössum. Smáforritið hefur verið í þróun í rúmt ár.

Húsasmiðjuappið er býður einnig upp á greiðsludreifingu til allt að tólf mánaða sem getur hentað við stærri kaup. Þá geta einstaklingar og fyrirtæki í reikningsviðskiptum stýrt lánsheimild sinni þar sem umsóknarferillinn er að fullu rafrænn. „Þetta er einstakt á Íslandi og þó víða væri leitað,“ segir í fréttatilkynningu.

„Húsasmiðjuappið hentar fagmönnum og fólki í framkvæmdum sérstaklega vel, þar sem það býður viðskiptavinum upp á að geta verslað í eigin reikning og séð sín afsláttarkjör á vörum um leið og þær eru skannaðar í verslun. Einnig er hægt að bæta við úttektaraðilum á viðskiptareikningi sem hentar vel þegar um stærri fyrirtæki er að ræða.“

Þá geta viðskiptavinir nálgast ítarlegar upplýsingar um vörur, þar á meðal hvort þær séu umhverfisvænar, á meðan þeir versla.

Magnús Guðmann Jónsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Húsasmiðjunnar:

„Húsasmiðjuappið hefur verið í vinnslu í rúmt ár í öflugum hópi UT deildar Húsasmiðjunnar og sameinar það sem við höfum verið að þróa í okkar stafrænu vegferð s.l. misseri á einum stað. Appið er í raun miklu meira en sjálfagreiðsluapp og það aðgreinir það frá því sem við höfum séð áður á smásölumarkaði í Evrópu.“

Tinna Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri verslanasviðs Húsasmiðjunnar:

„Við erum mjög spennt að kynna appið fyrir viðskiptavinum okkar, á sama tíma, í öllum verslunum Húsasmiðjunnar og Blómavals um land allt.. Þetta kemur til með að bæta enn frekar upplifun og þjónustu viðskiptavina okkar og koma betur á framfæri þeim þjónustuleiðum sem við bjóðum upp á.“