Þjóðskrá birti í vikunni fasteignamat ársins 2023 og kom þar fram að heildarmat fasteigna kæmi til með að hækka um tæp 20% miðað við yfirstandandi ár og nema alls 12.627 milljörðum króna.

Helgi Tómasson, prófessor í hagrannsóknum og tölfræði við Háskóla Íslands, hefur verið einn helsti gagnrýnandi ríkjandi fyrirkomulags fasteignaskatta og tengingar þeirra við fasteignamat. Að hans mati eigi húseigendur ekki að vera ofurseldir duttlungum bæjarfulltrúa.

„Þeim bæjarfulltrúum sem lofað hafa að lækka skattana vegna hækkunar fasteignamats blöskrar eflaust þetta kerfi. Farsælast tel ég að væri að ráðast að rót vandans og taka þetta kerfi úr sambandi,“ segir Helgi. Að hans sögn sé það ekki hlutverk ríkisins að giska á verðmæti eigna, en hann segir formúlu Þjóðskrár ógagnsæja og illa til þess fallna að mynda skattstofn.

„Skatta þarf annaðhvort að greiða með tekjum eða fólk þarf að taka lán fyrir þeim. Það getur varla talist eðlilegt að einstaklingur sem er svo óheppinn að búa á stað þar sem formúlan hækkar matið mest sé látinn greiða mun hærri prósentu af sínum launum í fasteignaskatt,“ segir Helgi. Hann segir mikilvægt að tengja skattinn við þjónustustig og nefnir 2.200 ára gamalt dæmi frá borg í Rómaveldi þar sem lögð var sjö kílómetra löng vatnsleiðsla sem veitti vatni til borgarinnar. Skattheimta Rómverja grundvallaðist á breidd vatnsveituröra sem lágu inn í húsin og þannig greiddu borgarar skatt í réttu hlutfalli við þá þjónustu sem þeir þáðu.

„Svipað ætti að gilda um skattheimtu í nútímanum. Hún þarf annaðhvort að grundvallast á þjónustu eða tekjum,“ segir Helgi.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.