Húsnæðisverð í Bretlandi féll um 1,5% á milli nóvember og desember samkvæmt vísitölu húsnæðisverðs hjá lánveitandanum Halifax. Vísitalan hefur nú fallið fjóra mánuði í röð.
Ársbreyting vísitölunnar mælist nú 2,0%, samanborið við 4,6% í síðasta mánuði. Halifax spáir því að húsnæðisverð muni falla um 8% í ár.
Meðalverð húsnæðis í Bretlandi er nú um 281,3 þúsund pund eða sem nemur 40,9 milljónum króna á gengi dagsins.
Vextir á fasteignalánum í Bretlandi hafa hækkað verulega að undanförnu eftir röð stýrivaxtahækkana hjá Englandsbanka, seðlabanka Bretlands. Bankinn hækkaði stýrivexti upp í 3,5% í desember en þeir hafa ekki verið hærri í 14 ár.
Hlutfall lánaumsækjanda sem standast greiðslumat hefur ekki verið lægra í tvö ár samkvæmt gögnum sem Englandsbanki birti í vikunni.