Góður hópur fólks gerði upp árið sem er að líða í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út á dögunum.

Birna Rún Eiríksdóttir, leikkona og áhrifavaldur

Viðburður ársins?

Barbenheimer! Það var concept sem byrjaði sem djók, þegar fólk var að photoshopa Barbie að sprengja kjarnorkusprengjur, mætti í bíó í bæði 40’s og bleikum fötum, og margir mættu jafnvel á báðar myndir sama dag.

Hneyksli ársins?

Ríkisstjórnin hneykslaði svo oft. Þá helst þegar hún tók ekki skýra afstöðu gegn þjóðarmorði sem er að eiga sér stað í Palestínu.

Frétt ársins? Sprungurnar í Grindavík!

Klisja ársins?

Klisja ársins er klárlega þegar Birgitta Líf og Enok héldu kynjaveislu og létu þyrlu dreifa bláum reyk úr lofti. Þau hafa sett þessa annars ágætu kynjaveisluhefð á eitthvað allt annað level sem ég er ekki hrifin af.

Birna Rún Eiríksdóttir
Birna Rún Eiríksdóttir
© Ásdís Ásgeirsdóttir (M Mynd/Ásdís Ásgeirsdóttir)

Bömmer ársins?

Bömmer ársins er verðbólgan! Nú veit ég alls ekki mikið þegar kemur að Seðlabankanum, vöxtum og stýrivöxtum. En ég veit bara að við erum að sogast í eitthvert kviksyndi og mér líst ekkert á blikuna.

Hetja ársins?

Anahita og Elissa sem læstu sig við möstur hvalveiðiskipa til að mótmæla því grimmilega ofbeldi sem hvalveiðar eru!

Óvænt ánægja ársins?

Að ég eignaðist hvolp. Það átti ekki beint að gerast, gerðist óvænt og hefur verið mikil ánægja, hamingja og ást. En líka ógeðslega pirrandi. Hún skemmdi 70% af öllum eignum mínum, en ég elska hana.

Patrik Snær Atlason, tónlistarmaður

Viðburður ársins?

Bikarmeistaratitill kvennaliðs Víkings í fótbolta. Það skemmdi ekki fyrir að systir mín setti tvö mörk í leiknum og sigldi titlinum heim.

Hneyksli ársins?

Þegar Adam Pálsson var settur á bekkinn hjá Val síðasta sumar. Þessi ákvörðun Arnars Grétarssonar, þjálfara Vals, kostaði liðið titilbaráttuna.

Patrik Snær Atlason (Prettyboitjokko)
Patrik Snær Atlason (Prettyboitjokko)
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Frétt ársins?

Þegar mér var stillt upp sem einhverjum sökudólg í útskriftarferð hjá nemendum MS til Krítar á vegum Tripical. Ferðaskrifstofan flaug mér út sem óvæntu skemmtiatriði fyrir nemendurna. Það var ýmislegt sem klúðraðist í þessari ferð en mér þótti frekar furðulegt að vera stillt upp sem ákveðnum sökudólgi í fréttinni.

Klisja ársins?

Iceguys. Er ekki ákveðin klisja að stofna nýtt boyband?

Bömmer ársins?

Að það hafi enginn boðið mér að stíga á stokk sem gestur á jólatónleikum. Hefur fólk ekki áhuga á að selja miða á tónleikana sína?

Hetja ársins?

Villi á Bensanum. Eftir að hafa slökkt eld í strætó á síðasta ári kom hann aftur til bjargar eftir að maður ógnaði gestum Benzín Cafe og starfsfólki á sólbaðsstofunni Smart.

Óvænt ánægja ársins?

Skrekkur 2023. Ég mætti þangað til að spila og stemningin var rosaleg. Það kom mér mikið á óvart hvað krakkarnir sköpuðu geggjaða stemningu þarna.

Berglind Pétursdóttir, hugmynda-, textastjóri og dagskrárgerðarkona

Viðburður ársins? Þegar Rúmfatalagerinn varð Jysk. Það er alltaf gaman að sjá fyrirtæki taka skref inn í framtíðina og svona umbreytingar veita mér innblástur. Einn daginn verð ég líka Jysk.

Hneyksli ársins?

Mögulega óvinsælasta skoðun ársins en mér finnst hneyksli að Barbie myndin hafi verið einhver stærsti kvikmyndaviðburður ársins (og sögunnar ef út í það er farið). Hef ekki nægan stafafjölda til að fara nánar út í þetta mál í þessum dálki en áhugasömum er velkomið að senda mér línu.

Berglind Festival
Berglind Festival
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Frétt ársins?

Í mars bárust fréttir frá dýragarðinum í Houston af því að 90 ára gömul smáskjaldbaka að nafni Mr. Pickles hefði eignast þrjá skjaldbökuunga. Ungarnir fengu nöfnin Dill, Gúrka og Jalapeno. Þetta þóttu mér gleðifréttir og frábært að fá myndir af skjaldbökuungum á forsíðu New York Times.

Klisja ársins?

Verðbólgan. Það er ekkert eðlilega gamaldags að vera að díla við verðbólgu og kvarta endalaust yfir verði á matarkörfu.

Bömmer ársins?

Tennisolnboginn sem ég þjáðist af stóran part ársins og íslensk stjórnmál yfir höfuð.

Hetja ársins?

Vinkonur mínar eru hetjur ársins. Ég var sérstaklega pirrandi og þreytandi á þessu ári en þær nenna ennþá að hitta mig.

Óvænt ánægja ársins?

Hvað veðrið var æðislegt og að vígahnötturinn sem stefndi á jörðina um miðjan febrúar hafi ekki eytt öllu lífi hér á jörð.

Logi Bergmann Eiðsson, sérfræðingur í samskiptum og miðlun

Viðburður ársins?

Rýming Grindavíkur. Allt í kringum þetta gos/ekki gos minnti okkur á að við búum í landi þar sem allt getur gerst og hvað það er sem skiptir raunverulega máli í lífinu.

Hneyksli ársins?

Garðabær er ekki lengur Mónakó Íslands.

Frétt ársins?

Sala Kerecis. Hvernig tókst að byggja upp þetta fyrirtæki með vestfirska vegakerfið er rannsóknarefni komandi kynslóða.

Logi Bergmann Eiðsson
Logi Bergmann Eiðsson
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Klisja ársins?

Flugumferðarstjórar á leið í verkfall.

Bömmer ársins?

Marcus Rashford. Hvernig er hægt að hætta allt í einu að kunna fótbolta?

Hetja ársins?

Sorpa og hetjuleg barátta hennar við freku jeppakallana sem vildu ekki flokkunartunnur. Vil ekki segja meira svo ég skemmi ekki fyrir þeim sem eru að bíða eftir Netflixseríunni.

Óvænt ánægja ársins?

Bikarmeistaratitill Víkinga í kvennaflokki. Það er ekkert sem kemur á óvart hjá karlaliðinu.

Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir, verslunareigandi og dagskrárgerðarkona

Viðburður ársins?

Að Laufey Lín Jónsdóttir og Ólafur Arnalds hafi bæði hlotið tilnefningu til Grammyverðlauna. Undraverður árangur hjá örþjóð.

Hneyksli ársins?

Að Donald Trump hyggi á endurframboð.

Frétt ársins?

Rýming Grindavíkur. Það var sláandi að horfa á fréttir af rýmingunni og sjá fólk yfirgefa heimili sín. Á sama tíma dáist ég að Grindvíkingum og hvað þau hafa tekist á við þetta af miklu æðruleysi. Ég er alin upp í Keflavík og gekk í framhaldsskóla með mörgum Grindvíkingum og ber því sterkar taugar til þeirra.

Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir
Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Klisja ársins?

Lagið Klisja eftir MC Gauta. Það kom reyndar út á síðasta ári en trónir enn ofarlega á playlistanum á heimilinu. Yngsta deildin syngur með og ég fæ kusk í augað. Hvaða klisja er það?

Bömmer ársins?

Fyrir utan það hversu dýr matarkarfan er orðin þá er bömmer ársins að Keflavík hafi fallið úr efstu deild karla í knattspyrnu.

Hetja ársins?

Eftir að hafa skyggnst inn í líf þríburaforeldra, fyrir þáttinn Þríburar sem verður sýndur á nýárskvöld á RÚV, koma þríburaforeldrar fyrst upp í hugann. Svefnlausar nætur, veikindi, tanntaka og ælupest x3. Það er ekkert grín.

Óvænt ánægja ársins?

Að vera valin Sjónvarpskona ársins af ungmennum á Sögum verðlaunahátíðinni.