Góður hópur fólks gerði upp árið sem er að líða í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út á dögunum.

Sindri Snær Jensson, verslunar- og veitingahúsaeigandi

Viðburður ársins?

Sigur Íslands á Englandi í lokaleik enskra fyrir Evrópumótið má aldrei gleymast. England stillti upp sínu sterkasta en landið í 70. sæti heimslistans kláraði dæmið á Wembley.

Hneyksli ársins?

Það er í raun hneyksli að megin þorri þjóðarinnar hafi loksins verið að uppgötva Danna Deluxe eftir vel heppnað DJ-sett hans í kosningapartýi Höllu Tómasdóttur í Grósku.

Frétt ársins?

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Bjarni Benediktsson slitu stjórnarsamstarfinu. Eftir á að hyggja mjög góð ákvörðun og ýtti þjóðinni í átt frá stöðnun í stjórnmálum.

Klisja ársins?

Endalausar skoðanakannanir og fréttir af þeim. Ég er mikið fyrir gögn en skoðanakannanir eru ekki heilagur sannleikur og að mínu mati eru niðurstöðurnar of oft túlkaðar á mjög skoðanamyndandi hátt.

Sindri Snær Jensson
Sindri Snær Jensson
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Bömmer ársins?

Leikskólamálin í Reykjavíkurborg. Innantóm, mistrúverðug og misraunhæf kosningaloforð í þessum efnum.

Hetja ársins?

Donald Trump fór í gegnum pólitíska endurfæðingu og vann stórsigur í forsetakosningum. Hvernig framhaldið verður er ekki gott að spá fyrir um en hann átti frábært ár.

Óvænt ánægja ársins?

Eldur Ólafsson, forstjóri og stofnandi Amaroq Minerals, er óvænt ánægja og sigurvegari ársins fyrir mér. Eldur hefur sýnt mikla framsýni og hugrekki.

Gerður Huld Arinbjarnardóttir, verslunareigandi

Viðburður ársins?

Forsetakosningarnar. Ég fór djúpt í að kynna mér alla frambjóðendur og heimsækja þá sem hægt var að hitta. Þetta gaf mínu lífi mikinn lit.

Hneyksli ársins?

Wok On-málið. Ég á enn erfitt með að treysta núðlustöðum eftir fréttir um rottuskít og mannsal. Ég hugsa að þetta verði áframhaldandi vandamál í mínu lífi og þarf líklega að sætta mig við að borða ekki núðlur lengur.

Frétt ársins?

Að Blush hafi opnað verslun á Akureyri, en þar á eftir að Bjarni Ben hafi slitið ríkisstjórn. Það setti smá krydd í tilveruna svona korter í jól.

Klisja ársins?

Að 12 Íslendingar hafi boðið sig fram til forseta Íslands árið 2024. Það kom tímabil þar sem allir og amma þeirra virtust vera undir feld og íhuga stöðu mála, því fólk var að skora á viðkomandi að taka þetta embætti að sér.

Gerður Huld Arinbjarnardóttir
Gerður Huld Arinbjarnardóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Bömmer ársins?

Að 105 koffín-vatnið hætti í sölu og að íslenska sumarið gleymdi alveg að mæta.

Hetja ársins?

Guðmundur hjá Guðmhundagöngum, sem labbar um 30 km á dag í öllum veðrum og vindum með hunda hjá uppteknum hundaeigendum, svo dýrin fái þá hreyfingu sem þau þurfa.

Óvænt ánægja ársins?

Að kötturinn Diego sé kominn heim eftir að hafa verið rænt, og að ég skyldi hafa fjárfest í klakavél. Það er það besta sem ég hef gert á árinu.

Herbert Guðmundsson, tónlistarmaður

Viðburður ársins?

Án efa voru það afmælistónleikarnir mínir í Háskólabíói 8. mars fyrr á þessu ári þar sem öllu var tjaldað til og bestu hljóðmennirnir, bestu ljósamennirnir og rjóminn af íslenskum tónlistarmönnum fengnir til þess að spila undir. Þar var sonur minn, Guðmundur Herbertsson, mín hægri hönd.

Hneyksli ársins?

Ég lifi lífi mínu á þann hátt að ég horfi á hið góða, fagra og fullkomna án þess að vera hneykslast yfir einu né neinu.

Frétt ársins?

Ætli það sé ekki salan á Marel, það hefur verið spennandi að fylgjast með málamyndunum þar sem ég er hluthafi og er frekar jákvæður yfir þessu. Það er bara vonandi að það verði staðið við tvískráningu.

Herbert Guðmundsson
Herbert Guðmundsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Klisja ársins?

Jólalög um miðjan nóvember.

Bömmer ársins?

Að hafa ekki átt stærri hlut í Marel, en maður getur alltaf verið vitur eftir á.

Hetja ársins?

Donald Trump, fyrir þrautseigjuna og dugnaðinn að gefast ekki upp við þvílíkar árásir sem hann átti við að stríða. Bæði pólitískar og líkamlegar árásir. Ég kann alltaf að meta fólk sem gefst aldrei upp og heldur stöðugt áfram.

Óvænt ánægja ársins?

Jólaboð fjölskyldunnar. Þar sem börnin mín koma heim erlendis frá og barnabörn. Bæði frá Danmörku og Austurríki og þá verður kátt í höllinni.

Ólöf Skaftadóttir, hlaðvarpsstjórnandi og ráðgjafi

Viðburður ársins?

Ég verð bara eigin klappstýra í þessu máli og segi live pod Komið gott í Iðnó í byrjun desember. Stappfullur salur af elegant gestum á kvöldstund sem var alls ekki allra.

Hneyksli ársins?

Þegar fjölmiðlar böðuðu sig og okkur hin upp úr því í marga daga að forseti lýðveldisins hefði keypt sér Volvo. Hefði viljað sjá forsetann á dýrari bíl.

Frétt ársins?

Allt um Queng Le og hans raunir.

Ólöf Skaftadóttir
Ólöf Skaftadóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Klisja ársins?

Textaverk með vísan í dægurlagatexta.

Bömmer ársins?

Bömmer ársins er að fá þríeykið aftur inn í líf mitt. Er ekki reiðubúin í þetta.

Hetja ársins?

Hetja ársins er Prís – kýldu í veggi og hleyptu lífi í kulnaðan bransa – en skúrkurinn er Samkeppniseftirlitið sem virðist óþreytandi í að koma í veg fyrir að neytendur fái að lifa sinn dag.

Óvænt ánægja ársins?

Þegar Bjarni Benediktsson flautaði endanlega af steindautt ríkisstjórnarsamstarf og boðaði til veislu fyrir hinar gjammandi stéttir – nú er bara að vona að menn fari ekki að búa til einhverja steypu í staðinn

Gunnar Sigurðarson, viðskiptastjóri og skemmtikraftur

Viðburður ársins?

Vínkynningarferð á eina af stærstu vínekru Norður-Póllands með úrvalsfólki var einstök upplifun sem vart er hægt að mæla með. Þá er innsetningarhátíð forseta Íslands í sumar ógleymanleg og einstakur viðburður.

Hneyksli ársins?

Við fyrstu sýn virðist lítið hafa komið almenningi á óvart þetta árið. Þetta má eflaust rekja til fjölda stórfurðulegra ákvarðana, hugmynda og gjörða sem höfðu áhrif á þjóðina á árinu.

Frétt ársins?

Lýðveldistíðindi. Guðni Th. setti tóninn með útafskiptingu sem klárlega riðlaði allt leikskipulagið. Þá er óhjákvæmilegt að nefna fráhvarf Margrétar, okkar, Þórhildar. Það var virkilega þungur hnífur.

Gunnar Sigurðarson
Gunnar Sigurðarson
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Klisja ársins?

Veðurfréttir eiga þennan flokk. Ég vil koma á framfæri þökkum til Einars Sveinbjörnssonar sem gaf góð fyrirheit um sumarið um miðjan maímánuð. Jinx-ársins.

Bömmer ársins?

Það er alltaf harmur þegar líf tapast í okkar fámenna samfélagi. Aldrei hafa þau verið fleiri en þetta árið.

Hetja ársins?

Aldrei skal gleyma þeim sem leggja líf sitt í hættu fyrir aðra. Ein björgunarsveitarhetja lést við æfingar fyrir skemmstu.

Óvænt ánægja ársins?

Í vor tryggði Ipswich sér sæti í úrvalsdeild á sama korteri og drengirnir mínir urðu Íslandsmeistarar í karate. Ippon eins og Japaninn myndi segja það.