Handbært fé Berkshire Hathaway, fjárfestingafélags Warren Buffett, hefur nú vaxið fimm fjórðunga í röð og nam 157 milljörðum dala í lok september sem er um 21.500 milljarðar íslenskra króna á gengi dagsins.
Samkvæmt The Wall Street Journal bíða fjárfestar eftir ársuppgjöri félagsins sem og fjárfestabréfi frá Buffett sem verður birt á laugardaginn til að sjá hvort handbært fé félagsins hafi orðið enn meira á síðustu mánuðum ársins.
Berkshire þurfti nýverið að tilkynna breytingar á hlutabréfaeignum félagsins til verðbréfaeftirlitsins en Buffett byrjaði hefur selt um 1% af hlutum sínum í Apple samhliða því að hann stækkaði við sig í Chevron og Occidental Petroleum.
Buffett að kaupa bréf undir rós
Berkshire fékk þó sérstakt leyfi hjá verðbréfaeftirlitinu til þess að birta ekki opinberlega um eignarhald eða kaup á ónefndum hlutabréfum en slíkt er leyfilegt í eitt ár ef félag hyggst halda áfram að bæta við sig hlutum og talið er að opinber birting viðskiptanna myndi hækka hlutabréfaverðið.
Samkvæmt WSJ eru margir að velta fyrir sér hvaða ónefnda félag Buffett hefur verið að kaupa í en þetta er annar ársfjórðungurinn í röð sem Berkshire fær að halda því leyndu.
Þá vonast margir til þess að Buffett greini frá því í fjárfestabréfi sínu á laugardaginn hvað hann ætli að gera við allt þetta handbæra fé félagsins en hann er sagður sitja eins og gammur fénu í leit að næsta fjárfestingatækifæri.
Charlie Munger, viðskiptafélagi Buffets til margra ára og varaformaður Berkshire Hathaway, sagði í viðtali í haust skömmu fyrir andlát sitt að það væru „að minnsta kosti 50/50“ líkur á að þeir félagarnir færu í aðra yfirtöku bráðlega.
Munger starfaði með Buffett hjá Berkshire Hathaway í meira en sex áratugi en samkvæmt WSJ er búist við því að Buffett muni minnast hans í fjárfestabréfinu um helgina.