Írar eru um þessar mundir að glíma við eitt stærsta fyrsta heims vandamál síðari tíma þar sem írska ríkið á of mikinn pening á meðan þeirra bíða um 14 milljarðar evra, eða ríflega 2.110 milljarðar íslenskra króna á gengi dagsins, sem ríkisstjórn Írlands vill ekki fá.
Um er að ræða fé sem situr í The Ireland Apple Escrow Fund sem bandaríska tæknifyrirtækið Apple stofnaði í apríl 2018 vegna deilna við Evrópu sambandið um endurálagningu skatta á Írlandi.
Apple lagði um 13 milljarða evra í sjóðinn en um 14 milljarðar eru þar í dag. Sjóðurinn hagnaðist um 400 milljónir evra í fyrra en samkvæmt Financial Times hefur sjóðurinn bókfært töp á skuldabréfamarkaði síðustu ár. Apple samdi um 13 milljarða evru greiðslu en ekki liggur fyrir nákvæm upphæð eftir vexti.
Írska ríkið eyddi um 10 milljónum evra í lögmannskostnað til að reyna að sannfæra Evrópudómstólinn um að leyfa Apple að eiga féð.
Á blaðamannafundi eftir niðurstöðu Evrópudómstólsins gerði Jack Chambers, fjármálaráðherra Írlands, lítið úr því hvort sú stefna væri slæm fyrir ímynd Írlands.
Hann sagði Íra stolta af lágskattastefnu sinni enda hefði erlend fjárfesting gert Írland að velmegunarlandi.
Mörgum þykir þetta skrýtin hegðun en lágskattastefna Írlands, þegar kemur að fjármagni og fyrirtækjum, hefur komið þeim í þá stöðu að féð sé í raun óþarft og gæti jafnvel verið skaðvaldur í sjóðheitu hagkerfi.
„Ríkið á svo mikið fé að það er í raun í afneitun um þennan sjóð,“ segir írski hagfræðingurinn David McWilliams í samtali við Financial Times.
Afgangur af rekstri ríkissjóðs Írlands í ár er um 9 milljarðar evra sem samsvarar 1.356 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.
Þó að hagkerfi Írlands sé ögn stærra í sniðum en það íslenska er þó rétt að taka fram að hérlendis var yfir 80 milljarða halli á ríkissjóði í fyrra.
Þá gerir fjárlagafrumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar ráð fyrir halla af rekstri ríkissjóðs Íslands til ársins 2028.
Samkvæmt frumvarpinu þarf að taka ný langtímalán fyrir um 165 milljarða á næsta ári.
Markaðsaðilar segja það vanmat og að raunútgáfuþörfin fari líklegast yfir 200 milljarða.
Á næstu tveimur árum eru um 460 milljarða króna afborganir á gjalddaga en líklegt er að gjalddagar skuldabréfa og víxla verði endurfjármagnaðir.
Vaxtagjöld eru orðin einn stærsti útgjaldaliður hins opinbera. Í nýrri fjármálaáætlun til ársins 2029 er gert ráð fyrir að vaxtagjöld nemi um 650 milljörðum króna yfir tímabil áætlunarinnar. Það þýðir að um 350 milljónir fara í vaxtagreiðslur á hverjum degi næstu fimm árin.
Það er því rétt að spyrja, hvernig enduðu Írar með milljarða í fanginu á meðan Ísland á ekki fyrir útgjöldum ár eftir ár.
Þessi frétt er hluti af lengri umfjöllun Viðskiptablaðsins um skattahækkanir á fyrirtæki eftir efnahagshrunið 2008. Áskrifendur geta lesið fréttaskýringuna hér.