Gullverð hefur undanfarið verið í mikilli hækkunarhrinu og náði nýju sögulegu hámarki í febrúar eftir að hafa hækkað um 10% frá áramótum.
Þetta kemur í kjölfar 35% hækkunar á milli febrúar og október 2024, sem markaði endalok þriggja ára tímabils þar sem gullverð var að mestu stöðugt þrátt fyrir miklar sveiflur í vöxtum og áhættueignum á mörkuðum.
Í fréttabréfi Unhedged frá Financial Times segir að það sé ekki fyllilega ljóst hvers vegna gullverð tók skyndilega kipp, en helsta skýringin virðist vera kerfisbundin aukning í alþjóðlegri eftirspurn, sérstaklega frá seðlabönkum stórvelda.
Í janúar 2025 jók kínverski seðlabankinn gullforða sinn í þriðja mánuðinn í röð, sem styður þá kenningu að Kína sé markvisst að dreifa gjaldeyrisforða sínum og draga úr vægi bandaríkjadals.
Samkvæmt gögnum frá World Gold Council námu hreinar fjárfestingar í gullstuddum kauphallarsjóðum (ETF) 3 milljörðum dala í janúar eftir að hafa verið veikburða í nóvember og desember.
Sérstaklega vakti athygli að evrópskir gullsjóðir fengu 3,4 milljarða dala innstreymi í janúar, sem er mesta mánaðarlega innstreymi þeirra í nær þrjú ár.
Evrópa stendur frammi fyrir óvissu vegna mögulegra tollaðgerða frá Bandaríkjunum og virðast fjárfestar því sækja meira í öruggar eignir á borð við gull.
Þessi aukna eftirspurn hefur átt sér stað samhliða hefðbundnum hagfræðilegum þáttum sem styðja við hærra gullverð.
Raunvextir hafa lækkað, eins og sést á verðtryggðum 10 ára bandarískum ríkisskuldabréfum, þar sem ávöxtunarkrafa þeirra hefur dregist saman um 25 punkta frá miðjum janúar.
Þegar raunvextir lækka minnkar fórnarkostnaðurinn við að eiga gull, sem gerir það aðlaðandi eign. Í þessu samhengi skiptir einnig máli að bandaríkjadalurinn hefur veikst undanfarna mánuði, sem styður við verðgildi gulls þar sem það er verðlagt í dollurum.
Viðsnúningur í þróun dollarans og raunvaxta vekur þó fleiri spurningar en svör.
Þessi þróun hefur gengið þvert á væntingar sem tengdust svokölluðum „Trump-viðskiptum“, sem byggðust á sterkari dollara og hærri langtímavöxtum.
Hvers vegna markaðir hafa snúið baki við þessari stefnu er meginspurningin á fjármálamörkuðum um þessar mundir. Þrjár skýringar virðast helst koma til greina.
Ein þeirra er að fjárfestar óttist að hagvöxtur í Bandaríkjunum sé að hægja á sér, ýmist vegna hagsveiflu, peningamálastefnu eða stefnu Trump-stjórnarinnar í efnahagsmálum.
Önnur skýring gæti verið sú að markaðir hafi búist við hörðum tollum frá Bandaríkjastjórn, en telji nú að slíkar aðgerðir séu ólíklegar.
Loks má nefna að tæknilegir þættir gætu skipt máli; markaðurinn hafi orðið of fjölmennur með veðmál á hækkandi dollara og vexti, sem hafi leitt til tímabundins bakslags.
Það er líklegt að blanda þessara skýringa eigi við, en ekki er ljóst hvert vægi þeirra er fyrr en frekari upplýsingar um stefnu Bandaríkjastjórnar í tollamálum liggja fyrir. Þetta setur fjárfesta í mikla óvissu á tímum þar sem sveiflur eru miklar á mörkuðum.
Gull hefur ítrekað reynst öruggt skjól í slíku ástandi, og það er ljóst að áframhaldandi þróun gullverðs á næstu mánuðum gæti gefið betri mynd af því hvert alþjóðlegur fjármálamarkaður er að stefna.