Stóru fjárfestinga- og viðskiptabankarnir í Bandaríkjunum hafa verið að birta árshlutauppgjör síðustu daga en samkvæmt The Wall Street Journal gefa uppgjörin glögga sýn á stöðu neytenda í Bandaríkjunum.
Samkvæmt uppgjörum JPMorgan Chase, Bank of America og Wells Fargo er neysla og lántaka enn á fremur heilbrigðum stað í Bandaríkjunum en öflugur vinnumarkaður spilar þar stórt hlutverk.
Launahækkanir og kaupmáttaraukning hefur verið umfram verðbólgu vestanhafs en lesa má úr uppgjörum bankanna að þeir séu fremur sannfærðir um að þróunin muni halda áfram á næstu misserum.
Hins vegar eru ummerki um að hægjast sé á vexti og einstaklingar með lélegt lánshæfismat séu að finna verulega fyrir verðhækkunum, sér í lagi á matvöru, en áframhaldandi hjöðnun verðbólgu mun vonandi koma þeim til góða á næstunni.
Mark Mason fjármálastjóri Citibank segir í uppgjöri bankans að heilt yfir sé staðan á neytendum góð og neysla sé að aukast með hóflegum hraða.
Hann bætti þó við að hátekjufólk væri enn megindrifkrafturinn í neyslu á meðan millitekjufólk væri enn að velja og hafna hlutum sem það eyðir í. Lágtekjufólk væri síðan að finna fyrir háum vöxtum og verðbólgu.
Brian Moynihan, forstjóri Bank of America, tekur í sama streng í uppgjöri bankans en debet- og kreditkortagreiðslur hafa aukist ár frá ári.
„Neytendur eru mun meðvitaðri um hærri lifnaðarkostnað og vexti en áður,“ segir Moynihan í uppgjörinu.
Ummerki eru þó um að fjölskyldur séu að finna fyrir meiri þrýstingi en hægst hefur á afborgunum kreditkorta og þá hefur lántaka aukist.
Samkvæmt JPMorgan Chase eru fleiri að dreifa kreditkortagreiðslum yfir marga mánuði á þriðja ársfjórðungi en áður. Kreditkortalán hafa verið að aukast hjá Wells Fargo og Bank of America.
Bandarískir neytendur eru síðan enn að leita í peningamarkaðssjóði með sparnaðinn sinn en sú þróun hefur verið að eiga sér stað í rúmt ár.
Hærri innlánsvextir hafa verið að sliga hagnað bankanna en bæði JP Morgan Chase og Wells Fargo segja að ýmis merki séu á lofti um að neytendur séu byrjaðir að leita eftir öðrum sparnaðarleiðum.