Tölu­verðar vanga­veltur eru í gangi vestan­hafs um af hverju fjár­festirinn War­ren Buf­fet er ekki að fjár­festa um þessar mundir.

Berks­hire Hat­haway, fjár­festingafélag Buf­fets, hefur verið að sanka að sér fé og hefur hann aldrei verið með jafn mikið fé á hendi en akkúrat núna. Af þeim sökum spyr The Wall Street Journal hvað það sé sem Buf­fet sér að sjá á mörkuðum en aðrir ekki?

Buf­fet, sem hefur grínast með það á árum áður að hann telji að besta tíma­lengdin til að halda í hluta­bréf sé „að eilífu“, á enn tölu­verðar eignir í bandarískum félögum.

Hann hefur þó aldrei á ævinni sett jafn mikið fé á hliðar­línuna en hand­bært fé Berks­hire í lok þriðja árs­fjórðungs nam 325 milljörðum bandaríkja­dala sem sam­svarar um 45.199 milljörðum ís­lenskra króna á gengi dagsins.

Sam­kvæmt WSJ er hann með stærstan hluta fjárins í ríkis­skulda­bréfum.

Til þess að setja þetta gríðarlega fjármagn í samhengi þá gæti Buffet keypt allt hlutafé félaga eins og Walt Disney, Goldman Sachs, Pfizer eða AT&T og átt töluverðan afgang eftir.

Samkvæmt WSJ getur Buffet keypt hvaða fyrirtæki sem er, að undanskildum 25 verðmætustu félögum Bandaríkjanna.

Sama hegðun og fyrir hrun

Á sama tíma og Buf­fet hefur verið að auka hand­bært fé fyrir­tækisins hefur hann verið að selja tölu­vert magn af hluta­bréfum í App­le og Bank of America á síðustu fjórðungum.

Þá var þriðji árs­fjórðungur sá fyrsti í sex ár þar sem Berks­hire keypti enga eigin hluti.

Að mati WSJ gæti þetta verið merki um að fjár­festar ættu að hafa varann á en í raun segir þessi hegðun Buf­fets meira um hvernig fjár­festinga­stefna Berks­hire er.

Frá stofnun hefur Berks­hire skilað 140 sinnum meiri ávöxtun en hluta­bréfa­markaðurinn í heild og segir WSJ að það sé ekki vegna þess að félagið færir ekki til eignir eftir markaðs­sveiflum.

Charli­e Mun­ger heitinn, sem var nánasti sam­starfsaðili Buf­fets í ára­tugi, sagði eitt sinn að það ætti ekki að hreyfa við eignum að óþörfu en aðrir vogunar­sjóðir og fjár­festar reyna oft að bregðast við sveiflum hverju sinni.

Hins vegar er rétt að taka fram að Buf­fet safnaði til sín gríðar­lega miklu fé skömmu fyrir efna­hags­hrunið 2008. Það fé nýtti hann síðan eftir hentug­leikum í kjölfar hrunsins á meðan fjölmörg fyrirtæki voru í lausfjársvanda.

„Hann er mjög meðvitaður um að markaðir hring­snúast og geta auðveld­lega endað í öf­gum,“ segir Adam J. Mead, fjár­málaráðgjafi frá New Hamps­hire og höfundur bókarinnar The Complete Financial History og Berks­hire Hat­haway, í sam­tali við WSJ.

Það að hluta­bréfa­verð sé í hæstu hæðum á ekki endi­lega að þýða að hrun sé yfir­vofandi eða bjarna­markaður, að sögn WSJ.

Hins vegar má færa rök fyrir því að markaðsvirði félaga nú sé ekki í samræmi við til­vonandi hagnað þeirra á næstu árum.

Sam­kvæmt WSJ hefur Buf­fet sagt að besta leiðin til að sjá hvar markaðurinn sé að skoða markaðsvirði félaga sem hlut­fall af stærð efna­hags Bandaríkjanna.

Buf­fet sagði það væri „besta ein­st leiðin til að sjá hvar markaðsvirði er í raun og veru á hverjum tíma.“

Það er hægt að gera þetta með nokkrum leiðum en ef Wils­hire 5000 vísi­talan er mæld gegn stærð efna­hags Bandaríkjanna er hlut­fallið 200% sem er á sam­bæri­legum stað og rétt áður en tækni­bólan sprakk um alda­mótin.

WSJ úti­lokar þó ekki að Buf­fet sé ein­fald­lega að geyma fé sitt á öruggari stað þar sem ríkis­skulda­bréf gefa mikla ávöxtun með til­tölu­lega lítilli áhættu.

Hann sagði þó á síðasta hlut­hafa­fundi Berks­hire að hann elskar enn að taka þátt í stórum fjár­festingum og að hann vonast til að eyða fénu.

„Ef við getum keypt fyrir­tæki fyrir 50, 75 eða jafn­vel 100 milljarða dali þá gerum við það,“ sagði Buf­fet.