Töluverðar vangaveltur eru í gangi vestanhafs um af hverju fjárfestirinn Warren Buffet er ekki að fjárfesta um þessar mundir.
Berkshire Hathaway, fjárfestingafélag Buffets, hefur verið að sanka að sér fé og hefur hann aldrei verið með jafn mikið fé á hendi en akkúrat núna. Af þeim sökum spyr The Wall Street Journal hvað það sé sem Buffet sér að sjá á mörkuðum en aðrir ekki?
Buffet, sem hefur grínast með það á árum áður að hann telji að besta tímalengdin til að halda í hlutabréf sé „að eilífu“, á enn töluverðar eignir í bandarískum félögum.
Hann hefur þó aldrei á ævinni sett jafn mikið fé á hliðarlínuna en handbært fé Berkshire í lok þriðja ársfjórðungs nam 325 milljörðum bandaríkjadala sem samsvarar um 45.199 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.
Samkvæmt WSJ er hann með stærstan hluta fjárins í ríkisskuldabréfum.
Til þess að setja þetta gríðarlega fjármagn í samhengi þá gæti Buffet keypt allt hlutafé félaga eins og Walt Disney, Goldman Sachs, Pfizer eða AT&T og átt töluverðan afgang eftir.
Samkvæmt WSJ getur Buffet keypt hvaða fyrirtæki sem er, að undanskildum 25 verðmætustu félögum Bandaríkjanna.
Sama hegðun og fyrir hrun
Á sama tíma og Buffet hefur verið að auka handbært fé fyrirtækisins hefur hann verið að selja töluvert magn af hlutabréfum í Apple og Bank of America á síðustu fjórðungum.
Þá var þriðji ársfjórðungur sá fyrsti í sex ár þar sem Berkshire keypti enga eigin hluti.
Að mati WSJ gæti þetta verið merki um að fjárfestar ættu að hafa varann á en í raun segir þessi hegðun Buffets meira um hvernig fjárfestingastefna Berkshire er.
Frá stofnun hefur Berkshire skilað 140 sinnum meiri ávöxtun en hlutabréfamarkaðurinn í heild og segir WSJ að það sé ekki vegna þess að félagið færir ekki til eignir eftir markaðssveiflum.
Charlie Munger heitinn, sem var nánasti samstarfsaðili Buffets í áratugi, sagði eitt sinn að það ætti ekki að hreyfa við eignum að óþörfu en aðrir vogunarsjóðir og fjárfestar reyna oft að bregðast við sveiflum hverju sinni.
Hins vegar er rétt að taka fram að Buffet safnaði til sín gríðarlega miklu fé skömmu fyrir efnahagshrunið 2008. Það fé nýtti hann síðan eftir hentugleikum í kjölfar hrunsins á meðan fjölmörg fyrirtæki voru í lausfjársvanda.
„Hann er mjög meðvitaður um að markaðir hringsnúast og geta auðveldlega endað í öfgum,“ segir Adam J. Mead, fjármálaráðgjafi frá New Hampshire og höfundur bókarinnar The Complete Financial History og Berkshire Hathaway, í samtali við WSJ.
Það að hlutabréfaverð sé í hæstu hæðum á ekki endilega að þýða að hrun sé yfirvofandi eða bjarnamarkaður, að sögn WSJ.
Hins vegar má færa rök fyrir því að markaðsvirði félaga nú sé ekki í samræmi við tilvonandi hagnað þeirra á næstu árum.
Samkvæmt WSJ hefur Buffet sagt að besta leiðin til að sjá hvar markaðurinn sé að skoða markaðsvirði félaga sem hlutfall af stærð efnahags Bandaríkjanna.
Buffet sagði það væri „besta einst leiðin til að sjá hvar markaðsvirði er í raun og veru á hverjum tíma.“
Það er hægt að gera þetta með nokkrum leiðum en ef Wilshire 5000 vísitalan er mæld gegn stærð efnahags Bandaríkjanna er hlutfallið 200% sem er á sambærilegum stað og rétt áður en tæknibólan sprakk um aldamótin.
WSJ útilokar þó ekki að Buffet sé einfaldlega að geyma fé sitt á öruggari stað þar sem ríkisskuldabréf gefa mikla ávöxtun með tiltölulega lítilli áhættu.
Hann sagði þó á síðasta hluthafafundi Berkshire að hann elskar enn að taka þátt í stórum fjárfestingum og að hann vonast til að eyða fénu.
„Ef við getum keypt fyrirtæki fyrir 50, 75 eða jafnvel 100 milljarða dali þá gerum við það,“ sagði Buffet.