Fjár­festar virðast vera búnir að veðja á hvað muni skila ávöxtun undir nýjum for­seta: Hluta­bréfa­vísitölur eru að hækka, Bandaríkja­dalur er að styrkjast, ávöxtunar­kröfur ríkis­skulda­bréfa eru að rjúka upp á meðan hluta­bréf í bönkum og Bitcoin eru á flugi.

Það er auðvelt að heim­færa flesta þessa hluti við kosninga­lof­orð Donald Trump. Lægri fyrir­tækja­skattar munu ýta hluta­bréfum upp á við, tollar munu styrkja Bandaríkja­dal, fyrir­huguð út­gjalda­aukning mun hafa áhrif á kröfur skulda­bréfa á meðan af­nám íþyngjandi reglu­verks mun losa um fjár­mála­stofnanir og raf­myntir.

Að mati The Wall Street Journal er þór óvíst hvort þetta raun­gerist síðan.

Stærsta óvissan liggur í því hvort Repúblikana­flokkurinn muni vinna full­trúa­deildina og stjórna þannig báðum deildum þingsins.

Skattalækkanir Trump fara lík­legast ekki í gegn annars. Svo þarf full­trúa­deildin að samþykkja fjár­lög ríkisins það gæti reynst Trump erfitt að auka út­gjöld verði Repúblikana­flokkurinn ekki við völd í báðum deildum.

Tollarnir sem Trump hefur ákveðið að leggja á Evrópuríki og Kína, sem eru í eðli sínu skattur, ættu að hafa jákvæð áhrif á af­komu ríkis­sjóðs og því setur WSJ spurninga­merki við hvort það sé upp­hlaup á skulda­bréfa­markaði í dag.

Ávöxtunar­krafa ríkis­skulda­bréfa til þrjátíu ára hefur hækkað mest á árinu sem ætti að vera vís­bending um að fjár­festar telji ólík­legt að gríðar­legur halla­rekstur ríkisins undir Biden og Trump sé að breytast á næstunni.

Hitt álita­efnið er síðan hvaða efna­hags­legu áhrif tvö stærstu kosninga­lof­orð Trump munu hafa, tollar og inn­flytj­enda­mál.

Trump hefur lofað að flytja milljónir ólög­legra inn­flytj­enda úr landi sem mun óneitan­lega, að mati WSJ, valda fram­boðs­skelli sem hefur verið ein ástæða þess að hægst hefur á vinnu­markaðinum og gaf seðla­bankanum svigrúm til vaxtalækkana.

Fram­boðs­skellir ýta oft undir verðbólgu og hægja á vexti og því ætti það að hafa neikvæð áhrif á hluta­bréf. Aukinn verðbólguþrýstingur ætti síðan að ýta ávöxtunar­kröfum skulda­bréfa upp sem er einnig slæmt fyrir hluta­bréf.

Hærri tollar munu óneitan­lega styrkja Bandaríkja­dal líkt og gerst hefur í morgun. Þegar Trump hækkaði tolla á Kína árið 2018 gerðist slíkt hið sama. Hann hefur nú lofað tollum á Evrópuríki og Mexíkó og má því búast við að Bandaríkja­dalur muni halda áfram að styrkjast.

Fjár­festar á gjald­eyris­markaði eru meðvitaðir um þetta og hefur Bandaríkja­dalur styrkt sig um 2,7% gagn­vart mexíkóska pesóinu og 1,7% gagn­vart evru.

Fjár­festar eru einnig að veðja á að for­setatíð Trump muni hafa áhrif á minni og meðal­stór fyrir­tæki en fram­virkir samningar með Rus­sell 2000 vísitöluna hafa þrýst henni upp um 4,5%. Mun það vera um tvöfalt meiri hækkun en S&P 500.

Sam­kvæmt WSJ þarf þó að hafa í huga að styrking Bandaríkja­dals gæti gengið til baka ef önnur lönd byrja að hækka tolla á út­flutnings­vörur Bandaríkjanna og við­skipta­stríð brýst út.

Hins vegar mun heims­byggðin að öllum líkindum tapa meiru á því en Kanada­menn þar sem Bandaríkin eru með vöru­skipta­halla og stærstu út­flutnings­vörurnar eru olía og flug­véla­hlutir en ólík­legt er að önnur lönd sjái hag sinn í að setja tolla á slíkar vörur.

Við­skipta­stríð mun þó óneitan­lega hafa áhrif á Bandaríkin og ef til þess kemur munu vextir hækka sem hefur neikvæð áhrif á hluta­bréfa­markaðinn, sem er öfugt við það sem fjár­festar eru að veðja á í dag.