Fjárfestar virðast vera búnir að veðja á hvað muni skila ávöxtun undir nýjum forseta: Hlutabréfavísitölur eru að hækka, Bandaríkjadalur er að styrkjast, ávöxtunarkröfur ríkisskuldabréfa eru að rjúka upp á meðan hlutabréf í bönkum og Bitcoin eru á flugi.
Það er auðvelt að heimfæra flesta þessa hluti við kosningaloforð Donald Trump. Lægri fyrirtækjaskattar munu ýta hlutabréfum upp á við, tollar munu styrkja Bandaríkjadal, fyrirhuguð útgjaldaaukning mun hafa áhrif á kröfur skuldabréfa á meðan afnám íþyngjandi regluverks mun losa um fjármálastofnanir og rafmyntir.
Að mati The Wall Street Journal er þór óvíst hvort þetta raungerist síðan.
Stærsta óvissan liggur í því hvort Repúblikanaflokkurinn muni vinna fulltrúadeildina og stjórna þannig báðum deildum þingsins.
Skattalækkanir Trump fara líklegast ekki í gegn annars. Svo þarf fulltrúadeildin að samþykkja fjárlög ríkisins það gæti reynst Trump erfitt að auka útgjöld verði Repúblikanaflokkurinn ekki við völd í báðum deildum.
Tollarnir sem Trump hefur ákveðið að leggja á Evrópuríki og Kína, sem eru í eðli sínu skattur, ættu að hafa jákvæð áhrif á afkomu ríkissjóðs og því setur WSJ spurningamerki við hvort það sé upphlaup á skuldabréfamarkaði í dag.
Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa til þrjátíu ára hefur hækkað mest á árinu sem ætti að vera vísbending um að fjárfestar telji ólíklegt að gríðarlegur hallarekstur ríkisins undir Biden og Trump sé að breytast á næstunni.
Hitt álitaefnið er síðan hvaða efnahagslegu áhrif tvö stærstu kosningaloforð Trump munu hafa, tollar og innflytjendamál.
Trump hefur lofað að flytja milljónir ólöglegra innflytjenda úr landi sem mun óneitanlega, að mati WSJ, valda framboðsskelli sem hefur verið ein ástæða þess að hægst hefur á vinnumarkaðinum og gaf seðlabankanum svigrúm til vaxtalækkana.
Framboðsskellir ýta oft undir verðbólgu og hægja á vexti og því ætti það að hafa neikvæð áhrif á hlutabréf. Aukinn verðbólguþrýstingur ætti síðan að ýta ávöxtunarkröfum skuldabréfa upp sem er einnig slæmt fyrir hlutabréf.
Hærri tollar munu óneitanlega styrkja Bandaríkjadal líkt og gerst hefur í morgun. Þegar Trump hækkaði tolla á Kína árið 2018 gerðist slíkt hið sama. Hann hefur nú lofað tollum á Evrópuríki og Mexíkó og má því búast við að Bandaríkjadalur muni halda áfram að styrkjast.
Fjárfestar á gjaldeyrismarkaði eru meðvitaðir um þetta og hefur Bandaríkjadalur styrkt sig um 2,7% gagnvart mexíkóska pesóinu og 1,7% gagnvart evru.
Fjárfestar eru einnig að veðja á að forsetatíð Trump muni hafa áhrif á minni og meðalstór fyrirtæki en framvirkir samningar með Russell 2000 vísitöluna hafa þrýst henni upp um 4,5%. Mun það vera um tvöfalt meiri hækkun en S&P 500.
Samkvæmt WSJ þarf þó að hafa í huga að styrking Bandaríkjadals gæti gengið til baka ef önnur lönd byrja að hækka tolla á útflutningsvörur Bandaríkjanna og viðskiptastríð brýst út.
Hins vegar mun heimsbyggðin að öllum líkindum tapa meiru á því en Kanadamenn þar sem Bandaríkin eru með vöruskiptahalla og stærstu útflutningsvörurnar eru olía og flugvélahlutir en ólíklegt er að önnur lönd sjái hag sinn í að setja tolla á slíkar vörur.
Viðskiptastríð mun þó óneitanlega hafa áhrif á Bandaríkin og ef til þess kemur munu vextir hækka sem hefur neikvæð áhrif á hlutabréfamarkaðinn, sem er öfugt við það sem fjárfestar eru að veðja á í dag.