Þó Hvalur hf. hafi ekki veitt langreyðar síðan árið 2015 hefur fyrirtækið átt þónokkrar birgðir af hvalaafurðum í geymslu. Á fimmtudaginn lagði flutningaskipið Winter Bay úr Hafnarfjarðarhöfn með um 1.400 tonn af hvalaafurðum áleiðis til Osaka í Japan. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Í blaðinu er rætt við Kristján Loftsson, framkvæmdastjóra Hvals. Hann segir að verið sé að flytja kjöt, spik, rengi tungu og fleira til Japans. Hann segir ennfremur að nú sé Hvalur hf. búið að senda nær allar sínar frystu hvalaafurðir úr landi. Hafrannsóknarstofnun hefur lagt til að á tímabilinu frá 2018 til 2025 verði árlega veiddar 209 langreyðar. Kristján segir að hjá Hval hf. hafi engin ákvörðun verið tekin um það hvort veitt verði næsta sumar.
RÚV greindi frá því fyrr í vikunni að Winter Bay myndi sigla norðausturleiðina. Skiptið færi fyrst til Murmansk í Rússlandi og þaðan í gegnum Norður-Íshafið til Osaka. Í frétt RÚV var rætt við Sigurstein Másson, fulltrúa Alþjóðadýravelferðarsjóðsins, sem sagði að veiðar á langreyði hefðu undanfarin ár snúist um annað en frjáls viðskipti. Þær hefðu meira snúist um að gefa yfirlýsingar úti í heim og verið einhvers konar pólitík eins manns.