Orkustofnun veitti í dag Landsvirkjun virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun í Þjórsá.
Samkvæmt fréttatilkynningu frá Landsvirkjun verður í kjölfarið sótt um framkvæmdaleyfi til bæði Rangárþings ytra og Skeiða- og Gnúpverjahrepps, en mannvirki tengd virkjuninni verða í báðum sveitarfélögunum.
Stefnt er að því að Hvammsvirkjun taki til starfa fyrir árslok 2028.
Orkustofnun gaf jafnframt út leyfi til stækkunar Sigölduvirkjunar úr 150 MW í 215 MW með því að bæta fjórðu vélinni við og sækir Landsvirkjun um framkvæmdaleyfi til Ásahrepps og Rangárþings ytra.
„Stækkun Sigölduvirkjunar eykur afl og sveigjanleika í raforkukerfinu. Með aflaukningunni eykst orkuvinnslugeta stöðvarinnar aðeins lítillega, nema til komi meira rennsli með aukinni bráðnun jökla eða aukinni úrkomu. Áætlað er að stækkun verði lokið í lok árs 2027,“ segir í fréttatilkynningu Landsvirkjunar.
Hvammsvirkjun verður 740 GWst, 95 MW að stærð, sem þýðir að hún getur unnið svipaða orku og jarðvarmavirkjunin Þeistareykir á Norðurlandi gerir nú.
Orkustofnun gaf áður út virkjunarleyfi vegna Hvammsvirkjunar í desember 2022. Það var kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
Öllum álitamálum nema einu var vísað frá, en nefndin féllst hins vegar á að ekki hefði verið tryggt að útgáfa virkjunarleyfisins væri í samræmi við vatnaáætlun, sem gefin hafði verið út í fyrsta skipti í apríl 2022.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar var því sú að fella virkjunarleyfið úr gildi. Umhverfisstofnun hefur síðan veitt heimild til breytinga á vatnshloti.
„Vegna þeirra tafa sem orðið hafa í leyfisveitingaferlinu þurfa framkvæmdir að hefjast sem allra fyrst, eigi það takmark að nást að stöðin skili orku í árslok 2028. Vegagerðin er langt komin með endurbætur á Hvammsvegi og undirbýr lagningu nýs Búðafossvegar og brúar yfir Þjórsá,“ segir í tilkynningu.
andsvirkjun mun hefjast handa við gerð aðkomuvegar í framhaldi af Hvammsvegi og gröft frárennslisskurðar, þaðan sem efni fæst í Búðafossveg, fljótlega eftir að framkvæmdaleyfi sveitarfélaganna liggja fyrir.
Einnig verður lagður grunnur að vinnubúðum og lagt veitukerfi fyrir þær og framkvæmdasvæðið allt.