Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem felldi úr gildi virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að meðal fyrstu skrefa verði að sækja um nýtt virkjunarleyfi á grundvelli nýrra laga sem samþykkt voru í síðasta mánuði. Með þeim lögum var bætt úr formsgalla í lögum um stjórn vatnamála sem samþykkt var árið 2011.

„Hæstiréttur tekur í raun undir það að það hafi verið gerð mistök við lagasetninguna, að vilji Alþingis hafi staðið til annars, en það sé ekki hans hlutverk að leiðrétta mistök Alþingis,“ segir Hörður. Mistökin við lagasetninguna leiddu til þess að dómurinn taldi að Umhverfisstofnun hafi skort lagastoð til að heimila breytingu á vatnshloti.

„Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra steig þarna mjög ákveðið til verka og flutti nýtt lagafrumvarp sem var samþykkt samhljóða á þinginu, sem segir dálítið til um hver vilji löggjafans er. Við þurfum þá að sækja um nýtt leyfi á grundvelli þessara laga og þar er boðið upp á ákveðna flýtimeðferð sem að vonandi hjálpar okkur en það hefur aldrei verið gert áður. Þannig við þurfum bara að skoða það hversu langan tíma það tekur.“

Líklegast verði sótt um leyfi til bráðabirgða en ákvæði þess efnis er að finna í nýju lögunum. Að sögn Harðar sé hægt að afstýra einhverju tjóni með slíku leyfi en ekki verði farið á fullt með framkvæmdir fyrr en nýtt virkjunarleyfi liggur fyrir. Viðbúið er að kostnaður vegna þessara tafa verði umtalsverður en að sögn Harðar verður kostnaðurinn fyrir samfélagið mestur þar sem ekki er næg orka til staðar fyrir þarfir samfélagsins.

Ekkert ætti að standa í vegi þess að Landsvirkjun fái virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun að nýju. Hæstiréttur hafi tekið efnislega afstöðu til annarra álitamála, sem sneru að framkvæmd virkjunarinnar og undirbúningi Landsvirkjunar, og ekki gert neinar athugasemdir. Málfarsbreytingar við innleiðingu laga um stjórn vatnamála hafi einfaldlega leitt til þess að svo fór sem fór.

„Innleiðingin á Íslandi var sem sagt miklu meira íþyngjandi heldur en í Evrópu. En nú er þetta gert eins og til stóð og ekki verið að velta fyrir sér einhverjum málfarsbreytingum sem valda svona miklu tjóni,“ segir Hörður.