Katrín Ólafsdóttir, dósent í hagfræði við Háskólann í Reykjavík og fyrrverandi meðlimur peningastefnunefndar Seðlabankans, uppfærði á dögunum bakgrunnsmyndina (e. cover photo) á Facebook síðu sinni. Það eitt og sér er kannski ekki frásögu færandi en efni myndarinnar er það svo sannarlega.

Á nýju bakgrunnsmyndinni má sjá graf sem sýnir þróun verðbólgunnar frá árinu 2006. Að sama skapi er búið að merkja tímabilið sem Katrín sat í peningastefnunefnd með ljósgráu inn á myndina. Á tímabilinu sem um ræðir gekk baráttan við verðbólguna vel og var verðbólgan til að mynda undir eða mjög nálægt 2,5 prósenta verðbólgumarkmiði Seðlabankans frá 2014 til 2019.

Bakgrunnsmynd Katrínar á Facebook.
© Facebook (Facebook.com)

Katrín var skipuð í peningastefnunefnd í mars árið 2012 og sat í nefndinni í áratug, sem er hámarksskipunartími í nefndinni. Síðasta vaxtaákvörðun sem Katrín tók þátt í var kynnt 9. febrúar 2022 en þá voru stýrivextir hækkaði um 75 punkta, upp í 2,75%. Mánuðinn á undan hafði verðbólga mælst 5,7%. Það vill svo skemmtilega að Katrín birti myndina einmitt 9. febrúar síðastliðinn, eða nákvæmlega einu ári eftir að síðasta vaxtaákvörðun sem hún tók þátt í var kynnt.

Einn af Facebook-vinum Katrínar varpar fram spurningu um hvort „góða gráa tímabilið“ sé tími hennar í Seðlabankanum. Svar Katrínar er stutt og laggott: „Já!“. Í kjölfarið kallar vinurinn eftir því að Katrín snúi aftur í peningastefnunefndina.

Á brattann hefur verið að sækja í baráttunni við verðbólguna hér á landi undanfarið. Í síðustu mælingu mældist verðbólgan 9,9%. Peningastefnunefnd beið ekki boðanna og hækkaði stýrivexti og eru þeir nú orðnir 6,5%.