Níu nemar hlutu styrk úr Hvatningarsjóði Kviku en þetta er í síðasta sinn sem sjóðurinn veitir styrki.
Hvatningarsjóður iðnnema var stofnaður árið 2018 í samstarfi við Samtök iðnaðarins og Hvatningarsjóður kennaranema var stofnaður árið 2019 í samstarfi við Mennta- og barnamálaráðuneytið.
Níu nemar hlutu styrk úr Hvatningarsjóði Kviku en þetta er í síðasta sinn sem sjóðurinn veitir styrki.
Hvatningarsjóður iðnnema var stofnaður árið 2018 í samstarfi við Samtök iðnaðarins og Hvatningarsjóður kennaranema var stofnaður árið 2019 í samstarfi við Mennta- og barnamálaráðuneytið.
Í tilkynningu frá Kviku segir að hvor sjóður átti upphaflega að starfa í þrjú ár en eftir þriðju úthlutun úr Hvatningarsjóði iðnnema var ákveðið að halda áfram að styðja við menntagreinarnar og voru sjóðirnir tveir þá sameinaðir í einn sjóð, Hvatningarsjóð Kviku.
Hvatningarsjóður Kviku hefur haft það hlutverk að hvetja og styrkja ungt fólk til iðn- og kennaranáms og er markmið sjóðsins að efla umræðu og vitund um mikilvægi iðn- og kennaranáms og þýðingu starfa sem því tengjast fyrir íslenskt atvinnulíf.
„Það hefur verið okkur mikil ánægja að fylgjast með hvernig aðsókn í bæði iðnnám og kennaranám hefur aukist verulega frá stofnun sjóðsins. Samstillt átak samstarfsaðila okkar, Samtaka iðnaðarins og Mennta- og barnamálaráðuneytisins, hefur án efa haft mikið um það að segja og erum við einstaklega stolt og þakklát fyrir samstarfið. En nú þegar 5 ára átaksverkefni stjórnvalda til að efla menntun í landinu, sem hófst haustið 2019, er að ljúka og staða iðnnáms hefur sjaldan verið betri, þá teljum við að nú sé rétti tíminn til að hætta með Hvatningarsjóðinn,“ segir Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku banka.
Frá stofnun Hvatningarsjóðsins hefur Kvika úthlutað styrkjum til 86 kennara- og iðnnema fyrir samtals 56 milljónir króna. Á þessu tímabili hefur umsóknum í iðn- og kennaranám fjölgað umtalsvert og í ljósi þess hefur verið ákveðið að leggja sjóðinn niður.
„Samtök iðnaðarins hafa allt frá stofnun lagt ríka áherslu á menntamál með það fyrir augum að auka veg iðn- og tæknináms. Aðsókn í slíkt nám hefur aldrei verið meiri og munu samtökin halda ótrauð áfram að styðja við byggingu nýs Tækniskóla sem á að rísa í Hafnarfirði og verða tilbúinn haustið 2029. Iðnaður er orðinn stærsta útflutningsgrein landsins og hefur alla burði til þess að vaxa og dafna enn frekar með auknum stuðningi við sérhæfða menntun ungs fólks,“ segir Jónína Guðmundsdóttir, varaformaður Samtaka iðnaðarins.