Stjórn Eikar fasteignafélags hf., sem lagði til við hluthafa að hafna valfrjálsu yfirtökutilboði Regins sl. föstudag, hefur uppfært greinargerð sína vegna hækkaðs tilboðs Regins.
Stjórnin hefur ákveðið að taka ekki afstöðu til tilboðsins að svo stöddu en mun uppfæra afstöðu sína þegar vika er í gildistími yfirtökutilboðsins rennur út.
Reginn hækkaði tilboðsverðið úr 0,452 hlutum í 0,489 hluti rétt fyrir fundinn sem samsvarar 48% útgefins hlutafjár í Reginn.
Taki allir hluthafar Eikar hinu breytta tilboði munu þeir fá í endurgjald að hámarki 1.670.351.049 hluti eða 48,0% útgefins hlutafjár í Reginn í kjölfar viðskipta miðað við útgefið hlutafé Regins 13. september.
„Stjórn Eikar fasteignafélags tekur að svo stöddu ekki afstöðu til þess hvort hún geti mælt með því við hluthafa sína að taka breyttu tilboði, en álítur hækkun tilboðsverðsins jákvæða þróun. Stjórn Eikar hyggst birta uppfærða afstöðu til hins breytta tilboðs Regins, a. m. k. einni viku áður en gildistími þess rennur út, enda kunnu þær forsendur sem liggja til grundvallar hinu breytta tilboði Regins og afstaða stjórnar, að halda áfram að þróast þar til gildistími rennur út,“ segir í uppfærðri greinargerð.
Segir stjórnin einnig að „hver og einn hluthafi verður að meta með sjálfstæðum hætti hvort honum hugnist að samþykkja yfirtökutilboð Regins
Í greinargerð stjórnar Eikar fyrir hlutahafafundinn segir að Arctica Finance hafi veitt stjórninni ráðgjöf í ferlinu en að þeirra mati væri sanngjarnt hlutfall hluthafa Eikar 50,6% á móti 49,4% hlutfalli hluthafa Regins. Miðast matið við 6,2% fjármagnskostnað hjá báðum félögum.
Í greinargerðinni segir einnig að allir stjórnarmenn Eikar sem einnig eigi hlut í félaginu hyggist hafna tilboði Regins.
Á hlutahafafundinum í síðustu viku samþykktu hluthafar heimild stjórnar til að undirrita samrunasamning við Reiti fasteignafélag hf. með 83,88% atkvæða sem farið var með á fundinum.