Stóru viðskiptabankarnir þrír, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, högnuðust samtals um 87,9 milljarða króna á síðasta ári.
Samanlagður hagnaður bankanna þriggja hefur aðeins einu sinni verið meiri, í krónum talið, frá fjármálakreppunni árið 2008 en það var árið 2015.
Þegar hagnaður bankanna árið 2024 er leiðréttur fyrir verðbólgu er hann hins vegar í meðallagi samanborið við árlega afkomu þeirra á árunum 2009-2024.
Hlutdeild ríkisins og lífeyrissjóða í 87,9 milljarða króna hagnaði viðskiptabankanna þriggja er 78,6%, eða sem nemur 69,1 milljarði króna.
Þar af er hlutdeild ríkisins 55,1% og hlutdeild lífeyrissjóða 23,5%. Aðrir hluthafar eiga 21,4% í hagnaðinum, sem nemur 18,8 milljörðum króna.
Arðgreiðslustefna viðskiptabankanna þriggja felst í að greiða að jafnaði um 50% af hagnaði fyrra árs til hluthafa.
Landsbankinn ætlar að greiða 50% af hagnaðinum út til hluthafa, eða sem nemur tæplega 19 milljörðum króna. Arion banki ætlar að greiða 61% af hagnaði síðasta árs út í arð, umfram 50% arðgreiðslumarkmið sitt, eða 16 milljarða króna. Íslandsbanki hyggst greiða 12,1 milljarð í arð, eða 50% af hagnaði. Þar að auki fékk bankinn á dögunum 15 milljarða heimild til endurkaupa á eigin bréfum frá FME.
Þúsund milljarða hagnaður frá hruni
Frá árinu 2009 hafa stóru viðskiptabankarnir þrír alls skilað tæplega þúsund milljörðum króna í hagnað, nánar tiltekið 990 milljörðum króna.
Landsbankinn hefur skilað mestum samanlögðum hagnaði á tímabilinu, um 380 milljörðum króna. Arion banki hefur skilað 308,5 milljarða króna hagnaði á sama tímabili og Íslandsbanki rúmlega 301 milljarði króna.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.