Það eru margar vand­ræða­legar leiðir til að tapa fé í en það er hins vegar ein­stök list að meta með réttum hætti hvert markaðurinn stefnir, kaupa inn á réttum tíma en engu að síður tapa fé.

Þetta er raunin fyrir fjár­festa í þremur kaup­hallar­sjóðum vestan­hafs sem sér­hæfa sig í gervi­greindar­fyrir­tækjum. The Wall Street Journal fjallar um sjóðina í frétta­skýringu í dag en þar eru les­endur beðnir um að sýna fjár­festum sjóðanna með­aumkun.

Þó að­eins þrír kaup­hallar­sjóðir sem tengjast gervi­greind hafi tapað eru allir slíkir sjóðir, sem WSJ gat fundið, að skila verri á­vöxtun en bæði S&P 500 og MSCI World.

Kald­hæðni ör­laganna fyrir fjár­festa í kaup­hallar­sjóðum sem tengjast gervi­greindarfyrirtækjum er að vel­gengni Nvidia hefur verið að gera þeim erfitt fyrir.

Hluta­bréfa­verð Nvidia hefur hækkað um 148% á árinu, þrátt fyrir um 8% gengis­lækkun síðustu daga.

Mark­miðið með kaup­hallar­sjóðum er að hafa fjöl­breytt eignar­hald til að verja fjár­festa fyrir markaðs­sveiflum og eru flestir sjóðir með þak á hversu mikið megi kaupa í einu fé­lagi.

Hlutur Nvidia í S&P 500 vísi­tölunni er nú í kringum 6% og því eru sumir Kaup­hallar­sjóðir að njóta minni góðs af vel­gengni fé­lagsins en t.d. vísi­tölu­sjóðir.

Ávöxtun AI- kauphallarsjóða á árinu í samanburði við S&P 500 og MSCI World.
Ávöxtun AI- kauphallarsjóða á árinu í samanburði við S&P 500 og MSCI World.
© Skjáskot (Skjáskot)

Sem fyrr segir hafa þrír sjóðir með nei­kvæða á­vöxtun á árinu en þeir eru 457 milljóna dala gervi­greindar- og þjarka­tækni­sjóður First Trust sem á að­eins um 0,8% í Nvidia. Mun það vera helmingi meira en sjóðurinn á í net­öryggis­fyrir­tækinu Black­berry sem hefur lækkað um 31% á árinu.

Þá hefur 213 milljóna dala kaup­hallar­sjóður Wis­dom Tree einnig skilað nei­kvæðri á­vöxtun á­samt 610 milljóna dala iS­hares Fu­ture AI & Tech Kaup­hallar­sjóði Blackrock. Verð­bilið milli bestu og verstu gervi­greindar­kaup­hallar­sjóða ársins er um 20% en sam­kvæmt WSJ er verið að „refsa“ fjár­festum fyrir að reyna dreifa eignar­haldi sínu á gervi­greindar­markaðinum.

Jay Jacobs, sjóð­stjóri hjá BlackRock, segir þó að það sé enn besta leiðin til að verja sig fyrir skakka­föllum að vera í kaup­hallar­sjóðum þrátt fyrir að einn risi á markaðinum sé að sópa til sín mikið á á­vöxtun ársins. Hann segir að þetta hafi verið megin­á­stæða þess að Kaup­hallar­sjóður BlackRock á­kvað að fjár­festa einnig í fyrir­tækjum sem vinna í þjarka­tækni.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal hvetja sjóð­stjórar í kaup­hallar­sjóðum tengdum gervi­greind til að sýna þolin­mæði en því miður er ekki auð­velt að finna fjár­festa sem vilja vera of lengi í sér­hæfðum kaup­hallar­sjóðum. Af þeim sökum hafa margir sjóðir breytt um stefnu eða sam­einast öðrum sjóðum.

Þolin­mæði gæti þó verið dyggð í þessu sam­hengi en þegar dot com-bólan sprakk árið tíunda ára­tug síðustu aldar hurfu flestir Kaup­hallar­sjóðirnir sem voru tengdir net­fyrir­tækjunum af sjónar­sviðinu. Sjóðirnir misstu þannig af sam­fé­lags­miðla- og veraldar­vefs­byltingunni sem átti sér stað ára­tug síðar.