Sigur Manchester United í úrslitaleik deildarbikarsins í dag gegn Newcastle batt enda á fimm tímabila bið eftir bikar hjá liðinu. Á sama tíma hafa stuðningsmenn félagsins þurft að horfa upp á að erkifjendurnir í Manchester City hafa unnið ensku úrvalsdeildina fjórum sinnum.
Fyrir tveimur árum fór keppinautarnir í City einnig fram úr United utan vallar þar sem árlegar tekjur City voru í fyrsta skipti meiri en United.
United hefur þó gengið mun betur eftir komu nýs þjálfara, Hollendingsins Erik ten Hag, og því gæti hagur liðsins einnig vænkast fjárhagslega.
1,6 eða 7?
Aðeins tveir aðilar hafa sýnt raunverulegan áhuga á að kaupa hlut Glazer fjölskyldunnar í knattspyrnuliðinu Manchester United. Í það minnsta opinberlega. Sex börn Malcolm Glazer eiga yfir 95% hlut í félaginu. Malcolm, sem fjárfesti aðallega í fasteignum, lést árið 2014.

Verðmiði fjölskyldunnar fyrir félagið er 6-7 milljaðar Bandaríkjadala. Það eru 870 - 1.015 milljarðar króna. Ef seljendunum tekst að selja á því verði er það hæsta verð sem fengist hefur fyrir íþróttalið – nokkurn tímann.
Að mati Lex, fasts dálks í breska viðskiptablaðinu Financial Times, er erfitt er að styðja verðvæntingar fjölskyldunnar með hefðbundnum fjárhagslegum mælikvörðum.
Að mati Lex er núverandi skráð markaðsverð félagsins, sem er tæpir 3,7 milljarðar dala, 537 milljarða króna, einnig of hátt og krefðist gríðarlega mikils vaxtar, bæði tekna og hagnaðar, til að réttlæta það.
Mat Lex að félagið sé ekki meira en 1,6 milljarða dala virði, eða 232 milljarða króna.

Keyptu 2005
Glazer fjölskyldan voru meðal fyrstu erlendu fjárfestanna til að fjárfesta í stóru ensku knattspyrnufélagi þegar þeir keyptu hlutafé United fyrir 790 milljónir punda árið 2005, eða 136 milljarða króna á núverandi gengi.
Líklegt er að 3,2 milljarða dala sala á Chelsea í maí síðastliðnum sé hvati að sölunni. Sú sala olli því að margir eigendur félaga í ensku deildinni hugsuðu sinn gang. Þeirra á meðal voru Fenway Group, eigendur Liverpool en þeir hafa síðar sagt að ekki standi til að selja félagið.
Tilboðsgjafarnir tveir
Tveir hugsanlegir kaupendur hafa opinberlega tilkynnt áhuga sinn Annar er Sir Jim Ratcliffe, ævilangur aðdáandi Rauðu djöflanna, milljarðamæringur og eigandi laxveiðánna Selár og Hofsár í Vopnafirði.
Hinn er Jassim bin Hamad al-Thani, sonur fyrrverandi forsætisráðherra Katar, og stjórnarformaður Qatar Islamic Bank. Hann er einnig sagður stuðningsmaður United. Qatar á nú þegar frönsku meistarana Paris Saint-Germain í gegnum Qatar Sports Investments.
Reglur Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, bannar félögum í eigu sömu aðila að keppa sín á milli. UEFA gerði þó undantekningu þegar um var að ræða félög í eigu Red Bull (Leipzig og Salzburg) sem léku hvort á móti hvoru öðru á Evrópumótinu árið 2018.
Þó Financial Times meti Manchester United aðeins á 1,6 milljarð dala munu fjárfestarnir tveir teygja sig miklu hærra en það.
Enda ræður fleira för en hugsanlegur fjárhagslegur ávinningur með kaupunum. Til dæmis hégómi (e. vanity).
Erfitt er að meta hann til fjár.